Fréttasafn



22. nóv. 2019 Almennar fréttir Menntun

Líta þarf til nýrra aðferða við kennslu

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, skrifar grein í Fréttablaðinu í dag um skóla sem er án kennara en stjórn Samtaka iðnaðarins átti þess kost fyrir skömmu að heimsækja 42 skólann í París. Námið í 42 skólanum fer fram í gegnum jafningjafræðslu sem byggir á þátttöku og framlagi hvers og eins nemanda, án námskeiða og án kennara, sem gerir nemendum kleift að virkja sköpunargáfu sína í verkefnamiðuðu námi. Skólinn, sem er sjálfseignarstofnun, var stofnaður 2013. Stofnandi skólans, Xavier Niel, taldi nauðsynlegt að koma breytingum að í menntakerfinu sem miðuðu að því að mennta fólk með þarfir atvinnulífsins í huga og ýttu undir mismunandi hæfileika nemenda á sem flestum sviðum sem og sjálfstæði í hugsun og vinnubrögðum.

Guðrún segir í niðurlagi greinar sinnar að ljóst sé að skóli sem þessi henti ekki öllum en það megi ekki gleyma því heldur að skólakerfið okkar eins og við höfum byggt það upp henti heldur ekki öllum. „Í síkvikum heimi verðum við að vera reiðubúin til að líta til nýrra aðferða við að mennta kynslóðir framtíðarinnar fyrir ný viðfangsefni. Aðferðafræði 42 skólans er í senn áhugaverð og gagnleg viðbót við hefðbundið skólahald sem líta mætti til hér á landi.“

Hér er hægt að lesa grein Guðrúnar í heild sinni.