Fréttasafn



3. sep. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Ljósastýring gæti skilað 80 milljörðum

Í nýrri greiningu SI, Ljósastýring skilar 80 milljörðum, kemur fram að tæplega 9 milljónum klukkustunda verði sóað í umferðartafir innan höfuðborgarinnar á árinu 2019 eða um 40 klukkustundum á hvern íbúa höfuðborgarinnar. Þar segir að með skilvirkri ljósastýringu sé tryggt að umferðin gangi betur fyrir sig innan þeirra samgöngumannvirkja sem eru til staðar og að arðsemi ljósastýringa á höfuðborgarsvæðinu gæti verið töluverð en það er mat SI að 15% minnkun í umferðartöfum í höfuðborginni með ljósastýringu muni skila um 80 milljörðum króna í ábata fyrir fyrirtæki og heimili á líftíma fjárfestingarinnar. Stofnkostnaður framkvæmdarinnar sé 1,5 milljarður króna til samanburðar. Með ljósastýringu megi þannig auka lífsgæði borgarbúa og framleiðni fyrirtækja innan borgarmarkanna og byggja stoðir undir hagvöxt framtíðarinnar.

Þá kemur fram í greiningunni að nær engar nýfjárfestingar í vegasamgöngum hafi litið dagsins ljós í borginni frá árinu 2012 þrátt fyrir verulega aukningu umferðar og aukna hlutdeild einkabílsins í ferðamátavali. Krafan um vegabætur verði  sífellt háværari en skv. nýlegri könnun vilji 43% borgarbúa að stofnbrautakerfið á höfuðborgarsvæðinu verði bætt samanborið við 27% árið 2014.

Ardsemi-ljosastyringa

Hér er hægt að nálgast greiningu SI í heild sinni.