Fréttasafn



15. nóv. 2018 Almennar fréttir

Málmiðnaður lagði grunninn að Íslandi nútímans

Það er deginum ljósara að málmiðnaðarmenn lögðu grunninn að því nútíma Íslandi sem við þekkjum í dag. Öflugt hátæknisamfélag eins og við eigum hér á landi verður ekki til án öflugra málmtækni, véltækni eða rafeindaiðnaði. Íslenskir járnsmiðir lögðu grunninn hér á árum áður og gættu þess að mennta og efla hagleiksmenn í iðninni. Þetta sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, meðal annars í ávarpi sínu í 80 ára afmælishófi Málms - samtaka fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík síðastliðinn mánudag. 

Guðrún sagði jafnframt að öll þau miklu mannvirki sem við búum að hér á landi hafi verið óhugsandi að reisa án aðkomu íslenskra málmiðnaðarfyrirtækja, þau væru undirstaða nútímamenningar og hluti okkar lífsgæða sem við búum við í dag hafi verið byggður á málmvinnslu og tækni tengdri henni. „Það má því segja að nútímamenning og drjúgur hluti lífsgæða hafi byggst á þeirri byltingu að ná að beisla eldinn og bræða og móta málma. Í dag er málmiðnaður hér á landi hátækni og krefst gríðarlegrar þekkingar og hæfni. Því hefur það sjaldan verið mikilvægara fyrir greinina að laða að hæfileikaríkt fólk til starfa en ekki síður að tileinka sér og skapa nýja tækni.“

Hér er hægt að nálgast tímarit Málms sem hefur verið gefið út í tilefni afmælisins og fleiri myndir frá afmælishófinu.