Fréttasafn19. jún. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Mannvirkjaiðnaður þarf að búa við gott starfsumhverfi

Búum mannvirkjaiðnaði gott starfsumhverfi er yfirskrift greinar sem Björg Ásta Þórðardóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, skrifar í sérblaði Viðskiptablaðsins um sýninguna Verk og vit sem fer fram í apríl á næsta ári. Björg segir að mannvirkjaiðnaður gegni lykilhlutverki þegar komi að framtíðarsýn stjórnvalda um húsnæðisuppbyggingu, innviðauppbyggingu og orkuskipti. Á Iðnþingi fyrr á þessu ári hafi verið greint frá því að þörfin fyrir uppbyggingu á þessum sviðum væri mikil. Hún segir að á þinginu hafi komið fram að iðnaðurinn sé tilbúinn í þessi verkefni en hann þurfi að búa við gott starfsumhverfi svo framtíðarsýn stjórnvalda raungerist. Starfsumhverfið þurfi að vera stöðugt, hagkvæmt og skilvirkt.

Í greininni segir að sagan hafi því miður einkennst af miklum óstöðugleika í mannvirkjaiðnaði þar sem sveiflur í greininni hafi fylgt hagsveiflunni en með mjög ýktum hætti. Megi í því sambandi nefna að greinin ríflega helmingaðist að umfangi eftir efnahagsáfallið 2008 en hafi meira en tvöfaldast að umfangi síðan. „Nú sjáum við aftur merki þess að greinin sé að dragast saman og aðgerðir stjórnvalda til að ná niður verðbólgu miðast öðru fremur að því að draga úr þenslu í mannvirkjaiðnaði. Mikilvægt er að auka stöðugleika og hverfa frá þeirri síendurteknu hegðun að nýta mannvirkjaiðnað til sveiflujöfnunar í hagkerfinu. Aukinn stöðugleiki stuðlar að auknum gæðum og aukinni framleiðni.“

Björg segir að það sé til mikils að vinna að búa mannvirkjaiðnaði gott starfsumhverfi sem sé í senn stöðugt, hagkvæmt og skilvirkt. Ábyrgð stjórnvalda sé þar mikil. Meira þurfi þó að koma til og séu fyrirtæki í mannvirkjaiðnaði ávallt á höttunum eftir nýjum lausnum og tækifærum til þess að starfa með skilvirkari hætti, auka hagkvæmni, vistvæna uppbyggingu og gæði. Hún segir að sýningin Verk og vit sé kjörið tækifæri til að eiga samtal um nýjar hugmyndir og lausnir í mannvirkjaiðnaði fyrir þá mikilvægu uppbyggingu sem sé framundan.

Hér er hægt að nálgast greinina í heild sinni.

Hér er hægt að nálgast sérblaðið.

Verk-og-vit-16-06-2023

Verk og vit, sérblað með Viðskiptablaðinu, 16. júní 2023.