Fréttasafn8. júl. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Mannvirki

Markaðsbrestur á íbúðamarkaði

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, ræddi um efnahagsmál og íbúðamarkaðinn við Kristján Kristjánsson í Sprengisandi á Bylgjunni. Þar vitnar Kristján til greiningar SI sem segir að efnahagssamdrátturinn gæti orðið meiri en efnahagsspár gera ráð fyrir og hagvöxturinn orðið minni á næsta ári en gert er ráð fyrir í opinberum spám, að þetta verði skarpari samdráttur heldur en menn höfðu áður talið. „Við sáum það auðvitað síðasta vetur að það var heilmikil óvissa sem vofði yfir hagkerfinu, það var staðan í ferðaþjónustu og kjarasamningarnir sem vógu þyngst þar. Óvissunni var svo aflétt núna í vor, kjarasamningar náðust, lífskjarasamningarnir voru nokkurn veginn í takt við það svigrúm sem var til staðar en fall WOW air hefur heilmikil áhrif. Þannig að sú óvissa fór á versta veg ef við getum sagt sem svo sem hefur auðvitað leitt til samdráttar annars staðar. Eftirspurnin hefur minnkað og þetta hefur haft sín áhrif á það,“ segir Sigurður. 

Sigurdur-2018_1540906570689Hætta á að dragi enn frekar úr fjárfestingu

Sigurður segir að hættan framundan sé sú að það dragi enn frekar úr fjárfestingu. „Vonandi mun hið opinbera ekki skera fjárfestingar niður en það er auðvitað hætt við því á næstu árum því ríkið hefur þurft að draga aðeins saman seglin. Það eru einhverjar blikur á lofti varðandi íbúðarfjárfestingu líka. Síðan má segja að bankakerfið sé þurrkað, í þeim skilningi að það hefur ekki útlánatekjur, það er krónuskortur. Þetta er auðvitað mjög slæmt og þó Seðlabankinn hafi lækkað vexti til að koma til móts við þessa stöðu í hagkerfinu og reyna að örva eftirspurnina sem er hans hlutverk á svona tímum þá virðist það ekki duga til vegna stöðunnar í bankakerfinu. Það þarf auðvitað einhvern veginn að bregðast við.“

Fólk vill ódýrar íbúðir sem eru ekki í boði

Sigurður segir slæmt að við séum á bremsunni og hann hafi áhyggjur af íbúðamarkaðinum, að það hægist þar á. „Við erum eiginlega ennþá að glíma við afleiðingarnar af fjármálaáfallinu 2008 hvað varðar íbúðamarkaðinn. Þá fór allt í stopp í mörg ár og markaðurinn tók alltof seint við sér, fór að byggja alltof seint. Staðan á íbúðamarkaðinum núna er áhugaverð því að annars vegar heyrum við fréttir af því að það gangi illa að selja en hins vegar fáum við fréttir af því að ódýrar íbúðir fara á ásettu verði eða yfirverði. Við fáum fréttir af því að áhugi fólks á að kaupa íbúð sem er mælt reglulega hefur ekki verið meiri síðan 2007 eða 2008. Þannig að fólk vill kaupa ódýrar íbúðir en þær eru bara ekki í boði. Þannig að þetta er þá ákveðinn markaðsbrestur og við honum þarf einhvern veginn að bregðast.“ 

Skipulagsvaldið hjá sveitarfélögunum

Hann segir að sveitarfélögin hafi mikið um það að segja hvar er byggt og hvernig íbúðir vegna þess að skipulagsvaldið er þar. „Áherslan í höfuðborginni hefur verið á þéttingu byggðar, sú stefna er auðvitað ágæt en ef það er ekkert annað byggt á meðan þá auðvitað þýðir það að þær íbúðir verða dýrari.“

Sigurður nefnir stofnun átakshóps síðasta vetur til þess að gera tillögur til úrbóta á húsnæðismarkaði þar sem tugir tillagna komu fram sem sé verið að vinna með núna og einhverjar af þeim komi vonandi inn í þingið í haust. Hann segir tillögurnar vera fínar. „Ég hef mikla trú á þessari vinnu en þær þurfa að komast til framkvæmda. Því fyrr því betra. Síðan þarf að fylgja þeim eftir, ríkið þarf að gera sitt, sveitarfélögin þurfa að gera sitt og markaðurinn þarf svo að gera sitt. Það þarf að tengja alla aðila saman og láta alla ganga í takt.“

Á vef Bylgjunnar er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.