Fréttasafn



16. sep. 2025 Almennar fréttir Mannvirki Menntun Samtök rafverktaka

Markmið í uppnámi vegna skorts á iðnmenntuðu starfsfólki

Á haustdögum hefst annasamt tímabil hjá evrópskum stjórnmálamönnum þar sem áhersla verður lögð á að efla samkeppnishæfni og viðnámsþrótt í orkumálum. Hins vegar eru þessi markmið í uppnámi vegna skorts á iðnmenntuðu starfsfólki, einkum í rafiðnaði. Þetta segir Kristján Daníel Sigurbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka rafverktaka sem eru aðildarsamtök SI, í grein á Vísi undir yfirskriftinni Skortur á rafiðnaðarfólki ógnar samkeppnishæfni Evrópu og vísar þar í samantekt Union of Skills þar sem dregið er fram að rafvirkjar séu meðal 42 starfsstétta sem skortur sé á víða í Evrópu. Þetta hafi neikvæð áhrif á getu Evrópu til að takast á við orkuskipti og styrkja efnahagslega seiglu. 

Vantar 96.000 rafiðnaðarmenn í Þýskalandi einu saman

Kristján bendir á að þannig vanti sem dæmi yfir 96.000 rafiðnaðarmenn í Þýskalandi einu saman sem jafngildir rúmlega 20% skorti miðað við núverandi eftirspurn líkt og komi fram í skýrslu EuropeOn sem Samtök rafverktaka séu aðilar að. Hann segir að EuropeOn sem tali fyrir hönd rafverktaka í Evrópu leggi áherslu á að brýnast sé að gera iðnnám og tæknimenntun meira aðlaðandi og aðgengilegra, bæði fyrir ungt fólk og þá sem vilja skipta um starfsvettvang. Kristján bendir jafnframt á að í skýrslunni komi fram að á sama tíma og Evrópusambandið undirbúi nýja átakalínu undir heitinu rentrée, sem meðal annars feli í sér hertar aðgerðir í loftslagsmálum og nýja aðgerðaráætlun til eflingar á raforkukerfum, bendi iðnaðurinn á að skortur á hæfu starfsfólki geti sett markmiðin í uppnám. Í raun sé hætta á að góð fyrirheit um orkuskipti nái ekki fram að ganga einfaldlega vegna þess að of fáir séu til að setja upp og viðhalda nauðsynlegri tækni.

Sambærilegur skortur á iðnmenntuðu starfsfólki hér á landi

Kristján segir að raunveruleikinn á Íslandi hafi aðra birtingarmynd en niðurstaðan sé sú sama og í ríkjum Evrópusambandsins. Líkt og komi fram í greiningu SI þá sé iðnnám eftirsótt á Íslandi en árlega sé hundruðum umsókna um iðnnám synjað þar sem starfsnámsskólarnir fái ekki þá fjárveitingu sem þeir þurfi til að geta tekið við nemendum sem sækist eftir skólavist. Skortur á starfsfólki með rétta hæfni sé viðvarandi vandamál og segjast 67% stjórnenda fyrirtækja í rafiðnaði að erfiðleikar við að finna rétt starfsfólk hafi heft vöxt fyrirtækisins á síðustu árum. Hann segir að það sé mat Samtaka rafverktaka að sambærilegur skortur á iðnmenntuðu starfsfólki sé til staðar hér á landi, sérstaklega í greinum sem tengjast uppbyggingu orkukerfa, orkuskiptum og orkunýtingu. „Ef Ísland ætlar að standa undir eigin markmiðum um sjálfbæra þróun og aukna orkunýtingu þarf að grípa til sambærilegra aðgerða og Evrópusambandið hyggst ráðast í. Efling iðnmenntunar, nánari tenging milli atvinnulífs og menntakerfis og stefnumótun byggð á raungögnum um færniþarfir framtíðarinnar eru lykilatriði. Samtök rafverktaka munu áfram vinna að því að efla þessi mál til að tryggja að íslenskur iðnaður búi yfir þeim mannauði sem nauðsynlegt er til að halda áfram á braut nýsköpunar og sjálfbærrar þróunar.“

Á vef Vísis er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Vísir, 16. september 2025.