Menntatækni og nýsköpun kynnt kennaranemum í Grósku
Samtök menntatæknifyrirtækja, IEI, stóðu fyrir vísindaferð fyrir kennaranema og nemendur á Menntavísindasviði Háskóla Íslands í nýsköpunarhúsinu Grósku 7. nóvember. Viðburðurinn var helgaður menntatækni og nýsköpun í skólastarfi, þar sem íslensk menntatæknifyrirtæki kynntu fjölbreyttar lausnir sem miða að því að styðja við kennslu, námsögn, inngildingu og faglegt starf í skólum landsins. Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir, sérfræðingur í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, segir að vísindaferðin í Grósku sé gott dæmi um hvernig nýsköpun og menntun geti sameinast með gagnlegum hætti. Hún segir mikilvægt að styðja við þróun íslenskra menntatæknilausna og efla tengsl milli kennaramenntunar og frumkvöðlastarfs sem stuðlar að bættum árangri, aukinni skilvirkni og betra skólaumhverfi.
Á meðal fyrirtækja sem tóku þátt voru:
-
Infomentor sem kynnti námsumsjónarkerfi fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla sem styður við utanumhald og samskipti milli kennara, foreldra, nemenda og stjórnenda.
-
AIS sem kynnti „Skóla í skýjunum“ og lausnir sínar fyrir stafrænt skólaumhverfi.
-
Beanfee sem fjallaði um hvernig hvatakerfi geta aukið námsáhuga og bætt námshegðun.
-
Evolytes sem kynnti skapandi lausnir í stærðfræðikennslu undir slagorðinu „leikur er að læra stærðfræði“ og kynnti jafnframt Stóru stærðfræðikeppnina, sem nú er landskeppni fyrir alla grunnskóla.
-
Undralingur.is sem sýndi lausn sína til að efla lestrarfærni með skemmtilegum og sjónrænum hætti.
-
Meta Geta sem kynnti lausn sem styður við innra mat skóla og gæðastarf með því að greina styrkleika, veikleika og umbótatækifæri á aðgengilegan hátt.
Einnig voru kynntar lausnir frá fyrirtækjunum Atlas Primer, Læsir, Skólaakademían, Tiro, Tvík og Undirdjúpunum – en öll hafa fyrirtækin þróað lausnir með það að markmiði að bæta námsumhverfi, auka inngildingu og létta álagi af kennurum.









