Fréttasafn



27. okt. 2025 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Menntun Samtök menntatæknifyrirtækja

Menntatæknilausnin Bara tala á norskan markað

Íslenska máltæknifyrirtækið Bara tala sem er aðildarfyrirtæki Samtaka menntatæknifyrirtækja (IEI) kynnti í vikunni norska útgáfu menntatæknilausnarinnar undir heitinu Bare si det. Opnunarviðburðurinn fór fram 20. október í sendiherrabústað Íslands í Osló í tengslum við Oslo Innovation Week. 

Í tilkynningu segir að Bare si det byggi á sama grunni og íslenska lausnin Bara tala, sem hafi á undanförnum árum fest sig í sessi sem nýstárleg og notendavæn menntatæknilausn til að styðja fólk með annað móðurmál en íslensku í starfstengdu tungumálanámi, aukinni samfélagsþátttöku og daglegum samskiptum. Fjöldi fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á Íslandi hafi nýtt lausnina með góðum árangri til að stuðla að aukinni inngildingu og virkri þátttöku á vinnumarkaði. En menntatæknilausnin nýtist bæði fyrirtækjum og sem námsgagn í skólum til að efla orðaforða, inngildingu á einfaldan hátt.

Högni Kristjánsson, sendiherra Íslands í Noregi og eiginkona hans Ásgerður Magnúsdóttir voru gestgjafar viðburðarins í Osló og tóku á móti fulltrúum úr nýsköpunargeiranum, máltæknisamfélaginu og atvinnulífinu í Noregi. Jón Gunnar Þórðarson, stofnandi og framkvæmdastjóri Bara tala, kynnti tilurð og framtíðarsýn lausnarinnar Bare si det og sagði frá fyrstu skrefunum í Noregi sem hafa gengið vonum framar. „Við erum ótrúlega stolt af því að stíga þetta skref að opna Bare si det og vonumst til að geta stutt við nýbúa og fyrirtæki í Noregi með notendavænu og starfstengdu tungumálanámi,“ segir Jón Gunnar í tilkynningunni.

Á Vísi er hægt að lesa nánar um málið.

Teymið sem stendur að Bara si det við sendiherrabústaðinn í Osló. Jón Gunnar Þórðarson, stofnandi og framkvæmdastjóri Bara tala, er til hægri í fremstu röð.