Mestar áhyggjur af fordæmisgildi og hvað gerist í framhaldinu
„Það er þetta fordæmisgildi sem við höfum kannski haft mestar áhyggjur af og hvað gerist í framhaldinu og hvað gerist þá með fleiri vöruflokka,“ segir Árni Sigurjónsson, formaður SI, í frétt RÚV um verndaraðgerðir ESB. Í fréttinni kemur fram að Árni segir þetta áhyggjuefni og að Samtök iðnaðarins telji verndaraðgerðirnar gegn kísilframleiðslu hafi neikvæð áhrif á Evrópumarkaðinn og veiki samkeppnishæfni Evrópu gagnvart öðrum mörkuðum. Í frétt RÚV kemur jafnframt fram að Árni bendi á að íslensk fyrirtæki hafi starfað samkvæmt sama regluverki, umhverfisstöðlum og markaðsreglum og fyrirtæki innan ESB í áratugi. „Hagsmunirnir eru náttúrlega miklir fyrir Ísland, að við séum innan innri markaðarins, að EES samningurinn haldi gildi, eins og hann hefur gert núna í rúm þrjátíu ár og er algjör lykilsamningur fyrir Ísland.“
Neikvæð áhrif á aðfangakeðjur og veikir samkeppnishæfni Evrópu
Þá kemur fram að Árni telji þessar aðgerðir geta haft neikvæð áhrif á aðfangakeðjur á svæðinu og veikja samkeppnishæfni Evrópu. „Við vitum það að kaupendur að þessu hráefni eru innan Evrópu og þegar það er verið að leggja verndarráðstafanir t.d. á mikilvæg hráefni sem eiga uppruna í þessum löndum sem, eins og við bentum á, hafa að fullu innleitt regluverk innri markaðarins, að það sé ekki skref í rétta átt og muni hafa áhrif á samkeppnishæfni innri markaðarins í Evrópu.“
Mikilvægt að standa vörð um meginreglur
Í frétt RÚV kemur fram að Árni hafi vakið máls á þessu á formannafundi BusinessEurope í Nicosia á Kýpur þar sem hann kallaði eftir stuðningi aðildarríkja. „Þróun í alþjóðaviðskiptum er farin að hafa áhrif á stefnu ESB hvað varðar aðgerðir til að tryggja öryggi aðfangakeðja innan álfunnar. Órói í alþjóðaviðskiptum gerir það að verkum að nú er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að standa vörð um þær meginreglur sem eru grundvöllur samkeppnishæfni Evrópu.“
RÚV, 22. nóvember 2025.

