Verndarráðstafanir ESB veikja samkeppnishæfni Evrópu
Það er mat Samtaka iðnaðarins að sú aðgerð að leggja á verndarráðstafanir á mikilvæg hráefni sem eiga uppruna í löndum sem hafa að fullu innleitt regluverk innri markaðarins er ekki skref í rétta átt. Slíkar aðgerðir hafa neikvæð áhrif á lykilaðfangakeðjur á svæðinu og veikja þar með samkeppnishæfni Evrópu og skapa einnig ósamræmi. Þetta sagði Árni Sigurjónsson, formaður SI, í ávarpi í dag á formannafundi BusinessEurope sem fer fram í Nicosia á Kýpur. Á fundinum komu saman helstu forystumenn iðnaðar og atvinnulífs í Evrópu til að ræða samkeppnishæfni. Á fundinum var samþykkt sameiginleg yfirlýsing leiðtoganna með sérstaka áherslu á að dýpka og treysta innri markað ESB.
Árni sagði þróun í alþjóðaviðskiptum farin að hafa áhrif á stefnu ESB hvað varðar aðgerðir til að tryggja öryggi aðfangakeðja innan álfunnar. Órói í alþjóðaviðskiptum gerði það að verkum að nú væri mikilvægara en nokkru sinni fyrr að standa vörð um þær meginreglur sem væru grundvöllur samkeppnishæfni Evrópu.
Verndarráðstafanir þrátt fyrir aðild að EES-samningnum
Árni sagði að nýlegt dæmi væri ákvörðun ESB um verndaraðgerðir gegn kísiljárni sem eigi ekki aðeins uppruna sinn í þriðju ríkjum heldur einnig í Noregi og á Íslandi. Verndarráðstafanir hafi verið lagðar á ríkin þrátt fyrir að bæði Ísland og Noregur séu aðilar að EES-samningnum. Hann sagði EES-samninginn afar mikilvægan og að í meira en þrjátíu ár hafi íslensk fyrirtæki starfað samkvæmt sama regluverki, umhverfisstöðlum og markaðsreglum og fyrirtæki innan ESB.
Þá sagði Árni að í nýlegri tillögu framkvæmdastjórnar ESB um verndarráðstafanir fyrir stál fyrir árið 2026 væru EES ríkin sérstaklega undanþegin samþættingar við innri markaðinn. „Ákvörðunin varðandi kísiljárn er því í þversögn við þá röksemdafærslu sem framkvæmdastjórnin sjálf beitir nú í stáliðnaðinum.“
ESB þarf að styrkja tengls við nána bandamenn
Árni sagði jafnframt í ávarpi sínu að nú væri sá tími þar sem ESB þurfi að styrkja tengsl við nána bandamenn sem deili sömu gildum og framtíðarsýn. Hann sagði Samtök iðnaðarins meta mikils sterkt samstarf innan BusinessEurope. „En ég vil jafnframt undirstrika mikilvægi þess að BusinessEurope beiti sér fyrir gildum innri markaðarins, þar með talið gagnvart aðildarlöndum hans í gegnum EES-samninginn. Þegar Evrópa stendur frammi fyrir áskorunum á alþjóðavettvangi er nauðsynlegt að styrkja samkeppnishæfni álfunnar fremur en veikja. Ég tel það mikilvægara en nokkru sinni fyrr að standa vörð um grunngildi innri markaðarins og styrkja stoðir EES-samningsins. Við treystum á stuðning ykkar,“ sagði Árni að lokum í ávarpi sínu.
Auk Árna sitja formannafund BusinessEurope Jón Ólafur Halldórsson, formaður SA, Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, og Heiðrún Björk Gísladóttir, alþjóðafulltrúi SA.





Árni Sigurjónsson, formaður SI, og Fredrik Persson, forseti BusinessEurope.




