Fréttasafn



6. apr. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk Mannvirki Starfsumhverfi

Mikil áhrif COVID-19 á iðnaðinn samkvæmt nýrri könnun

Stjórnendur 75% fyrirtækja í iðnaði vænta þess að tekjur fyrirtækis þeirra dragist saman á öðrum ársfjórðungi í ár miðað við sama ársfjórðung í fyrra. Rétt um 47% vænta þess að samdrátturinn verði meira en fjórðungur og 24% að samdrátturinn verði meiri en 50%. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Maskína gerði fyrir Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og önnur aðildarfélög SA.

Mynd1_1586161505861

 

Flestir telja að áhrifin vari í 3-7 mánuði

Ríflega 57% stjórnenda iðnfyrirtækja telja að COVID-19 muni hafa áhrif á rekstur þeirra fyrirtækja í 3-7 mánuði. Um 13% telja að áhrifin muni vara 1-2 mánuði og 21% að áhrifin vari 8-12 mánuði. Ríflega 7% stjórnenda iðnfyrirtækja telja að áhrifin muni vara ár eða lengur.  

Mynd2_1586161542098

 

Hafa gripið til víðtækra hagræðingaraðgerða

Í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að stjórnenda iðnfyrirtækja hafa gripið til víðtækra hagræðingaraðgerða vegna COVID-19. Um 39% segjast hafa skert starfshlutfall, 32% hafa dregið úr öðrum rekstrarkostnaði, 17% skert þjónustu, 13% stytt afgreiðslu- eða þjónustutíma eða rekstrartíma í framleiðslu, 11% farið í uppsagnir og 6% annars konar hagræðingaraðgerðir.

Konnun-mars-2020-3-

Aðgerðir stjórnvalda nýtist 77% iðnfyrirtækja

Stjórnendur ríflega 77% iðnfyrirtækja segja að aðgerðirnar sem stjórnvöld kynntu 21. mars síðastliðinn komi að miklu eða einhverju gagni fyrir fyrirtæki þeirra til að bregðast við COVID-19. Þar er átt við aðgerðirnar í heild sinni. Stjórnendur 84% iðnfyrirtækja segja að þeirra fyrirtæki hafi nýtt sér laun í sóttkví. 75% segja að útvíkkun á „Allir vinna“ komi fyrirtæki þeirra að gagni og 76% að fjárfestingarátak stjórnvalda komi þeirra fyrirtæki að miklu eða einhverju gagni. Tæplega 69% segja að hlutastarfaleiðin komi þeirra iðnfyrirtæki að gagni, 55% frestun skattgreiðslna og 49% segja að brúarlánaleiðin komi þeirra iðnfyrirtæki að miklu eða einhverju gagni.

Könnunin fór fram dagana 26.-31. mars síðastliðinn og voru svarendur 674 sem gerir 37,3% svarhlutfall. 

Á vef SA er hægt að nálgast frekari niðurstöður könnunarinnar.