Fréttasafn



27. jan. 2023 Almennar fréttir Menntun

Mikil þörf á skráningu málm- og véltæknifyrirtækja í birtingaskrá

Góð mæting var á rafrænan fræðslufund Málms sem fór fram í vikunni þar sem fjallað var um notkun rafrænnar ferilbókar og skráningu fyrirtækja á birtingaskrá.

Ólafur Jónsson frá Nemastofu atvinnulífsins hélt kynningu um hlutverk og þjónustu sem Nemastofa atvinnulífsins veitir. Nemastofa er samstarfsvettvangur atvinnulífsins um bætt vinnustaðanám og fjölgun faglærðs starfsfólks í atvinnulífi. Markmið Nemastofu er m.a. að fjölga fyrirtækjum og iðnmeisturum sem taka nema á vinnustaðanámssamning, aðstoða fyrirtæki og iðnmeistara við að halda uppi gæðum vinnustaðanáms og markvissri kennslu og þjálfun iðnnema á vinnustað og halda úti öflugri kynningu á iðn- og starfsnámi.

Á fundinum fór Ólafur meðal annars yfir notkun rafrænnar ferilbókar og skráningarferli fyrirtækja sem vilja skrá sig á birtingaskrá. Hvatti hann fyrirtæki til skráningar en mikil þörf er á skráningu fyrirtækja í málm- og véltækni. Þá hvatti hann jafnframt fyrirtæki til þess að hafa samband verði þau vör við annmarka við notkun rafrænnar ferilbókar. Í lok kynningar Ólafs var boðið upp á spurningar.

Lilja Björk Guðmundsdóttir, viðskiptastjóri Málms hjá SI, var fundarstjóri.

Hér má nálgast glærur fundarins.