Fréttasafn



28. mar. 2019 Almennar fréttir Gæðastjórnun Mannvirki

Mikill áhugi á öryggismálum í byggingariðnaði

Öryggismál eru gæðamál var yfirskrift fjórða fundar í fundaröð Mannvirkjaráðs SI og IÐUNNAR um gæðastjórnun í byggingariðnaði sem fram fór í Húsi atvinnulífsins í morgun. Fjölmargir mættu á fundinn en markmið fundaraðarinnar er að efla og bæta umfjöllun og fræðslu um gæðamál í bygginga- og mannvirkjagerð og búa til vettvang fyrir umræðu um þessi mikilvægu málefni iðnaðarins. Frummælendur fundarins voru þau Reynir Guðjónsson, öryggisstjóri hjá Orkuveitu Reykjavíkur, Anna Jóna Kjartansdóttir, gæða- og öryggisstjóri hjá ÍSTAK, og Bergur Helgason, gæða- og öryggisstjóri hjá ÞG verk.

Mæla aðgerðir sem stuðla að öryggi

Í erindi Reynis kom meðal annars fram að gæða- og öryggismál snúast í grunninn um að koma auga á, greina og stýra hættum. Hann ræddi m.a. um hlutverk atvinnurekenda í öryggismálum, svo sem að upplýsa og þjálfa starfsfólk, tryggja að réttur öryggisbúnaður sé til staðar, tilkynna slys o.fl., og mikilvægi þess að ná til starfsfólks sem hafa það hlutverk að láta hlutina raungerast. Þá sagði Reynir að ef ekki er hugað að öryggi sé ekki hugað að gæðum. Auk þess ræddi hann um mikilvægi þess að mæla aðgerðir sem stuðla að öryggi, þ.e. varúðarráðstafanir enda sé öryggi ekki endilega til staðar þó svo það verði engin slys.

Áhættumat er hluti af gæðastjórnun

Anna Jóna greindi frá framkvæmd öryggis- og gæðamála innan ÍSTAKs og sagði að um ákveðið stjórnkerfi væri að ræða. Áhættumat væri ekki eingöngu öryggistæki heldur jafnframt hluti af gæðastjórnun. Hún ræddi einnig um mikilvægi þess að líta meira til forvarna frekar en eingöngu að mæla sjálf slysin.

Minna er meira

Í erindi Bergs kom meðal annars fram að minna er meira þegar kemur að gæða- og öryggismálum. Mikilvægt er að hafa ferla eins auðvelda og hægt er til að tryggja sem best að farið sé eftir þeim. Hann fór yfir fjóra meginþætti í tengslum við öryggis- og gæðamál á verki, þ.e. aðgerðarlista við upphaf verks, skipulagningu vinnusvæðis, gerð áhættugreininga og úttekta á vinnusvæðum. 

Hér er hægt að nálgast upptöku frá fundinum sem var streymt beint.

Hér er hægt að nálgast glærur fundarins.

Fundur-um-gaedastjornun-28-03-2019-7-Reynir Guðjónsson, öryggisstjóri hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Fundur-um-gaedastjornun-28-03-2019-5-Bergur Helgason, gæða- og öryggisstjóri hjá ÞG verk.

Fundur-um-gaedastjornun-28-03-2019-6-Anna Jóna Kjartansdóttir, gæða- og öryggisstjóri hjá ÍSTAK.

Fundur-um-gaedastjornun-28-03-2019-1-

Fundur-um-gaedastjornun-28-03-2019-2-

Fundur-um-gaedastjornun-28-03-2019-3-