Mikill áhugi á tækifærum í framleiðslu og geymslu birtuorku
Fjölmennt var á fræðslufundi Samtaka rafverktaka, Sart, sem haldinn var í húsakynnum Rafmenntar undir yfirskriftinni Tækifæri í framleiðslu og geymslu birtuorku á Íslandi. Fundurinn var vel sóttur af fagfólki í rafiðnaði og tengdum greinum en einnig var fjöldi fagaðila sem fylgdist með beinu streymi frá fundinum.
Kristján Daníel Sigurbergsson, framkvæmdastjóri Sart, segist fagna þessari umræðu sem stuðli að öruggri nýtingu endurnýjanlegrar orku, skýru regluverki og öflugri tækniþróun í þjónustu við græna framtíð. Hann segir að fundurinn endurspegli vaxandi áhuga á sjálfbærri orkuframleiðslu á Íslandi og mikilvægi þess að farið sé að reglum og viðeigandi verklagi við uppsetningu og rekstur birtuorkukerfa.
Á fundinum voru þrír sérfræðingar með framsögu:
- Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastýra Alor
- Rúnar Kristjánsson, löggiltur rafverktaki A&B og verkefnastjóri hjá Tengli ehf.
- Óskar Frank Guðmundsson, sérfræðingur í rafmagnsöryggi
Rafhlöður úr rafbílum endurnýttar
Linda kynnti starfsemi og verkefni Alor á sviði birtuorku. Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu framleiða nú uppsett kerfi frá Alor samtals 70,5 MWst á ári. Einnig sagði Linda frá þróunarverkefni þar sem rafhlöður úr rafbílum eru endurnýttar í geymslukerfi sem safna umframorku frá sólarorkuverum og skila henni aftur inn í kerfið þegar eftirspurn skapast.
Hönnun og uppsetning birtuorkuvera
Rúnar hjá Tengli ehf. fjallaði um ferli við hönnun og uppsetningu birtuorkuvera, þar sem hann lagði áherslu á mikilvægi samráðs við hagaðila á borð við skipulagsyfirvöld, veitufyrirtæki og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Í erindi sínu fór Rúnar yfir lykilatriði í tæknilegri útfærslu birtuorkuvera og hvernig framleiðslugeta þeirra getur haft áhrif á þær kröfur sem gerðar eru til uppsetningar, samþykkis og rekstrar. Þá kom fram að vel skipulagt samráð snemma í ferlinu geti dregið úr töfum og stuðlað að aukinni nýtingu endurnýjanlegrar orku.
Reglur og ábyrgð í orkuvinnslu
Að lokum fjallaði Óskar um reglur og öryggiskröfur sem gilda um orkuframleiðslu í neysluveitum. Í erindi hans komu fram eftirfarandi lykilatriði:
- Öll uppsetning birtuorkuvera þarfnast aðkomu löggiltra rafverktaka og telst tilkynningarskyld.
- Allar orkuframleiðandi einingar, óháð stærð, þarf að tilkynna til viðkomandi dreifiveitu.
- Dreifing og sala á raforku krefst ábyrgðarmanns og öryggisstjórnunarkerfis.
- Framleiðsla yfir 11 kW, jafnvel þó hún sé til eigin nota, þarfnast ábyrgðarmanns og öryggisstjórnunarkerfis.
Upptaka frá fundinum er aðgengileg á Youtube rás Rafmenntar:
https://www.youtube.com/watch?v=rw-o101uMxE