Fréttasafn



8. maí 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Mikilvægasta áskorunin að bæta samkeppnishæfni

„Nú þegar efnahagur landsins hefur verið réttur við með markvissum aðgerðum þá þarf að ráðast í stórátak í umbótum á menntun, innviðum, nýsköpun og starfsumhverfi til að efla samkeppnishæfni Íslands. Við þurfum að efla hana til að auka útflutningsverðmæti og auka þannig verðmætin í samfélaginu. Þannig verður meira til skiptanna því öll skip lyftast á flóði. EES-samningurinn skiptir miklu máli í þessu samhengi. Hann opnar aðgang að mörkuðum en hann gerir meira. Hann tryggir það að hér er svipað regluverk og tíðkast á þessum stóra markaði. Það einfaldar ekki bara fyrirtækjunum lífið heldur líka almenningi,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í viðtali í Markaðnum sem fylgir Fréttablaðinu í dag þar sem Sigurður og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA sitja fyrir svörum. Í viðtalinu við framkvæmdastjórana kemur fram að þeir sjá mýmörg sóknarfæri og telja það mikilvægustu áskorun næstu tuttugu ára að bæta samkeppnishæfni landsins til að auka útflutningsverðmæti þjóðarinnar, sem sé forsenda bættra lífskjara.

Eignastaðan er góð en innkoman þyrfti að vera meiri

Sigurður segir að það megi segja að nýtt skeið sé runnið upp og lífskjarasamningarnir eigi sannarlega þátt í því. „Það hefur algjör viðsnúningur orðið á efnahagsstöðu landsins frá því að við neyddumst til að setja fjármagnshöft fyrir tíu árum til þess að koma í veg fyrir enn dýpri lægð yfir í það núna að eiga meiri eignir erlendis heldur en skuldir, og öflugan gjaldeyrisforða. Hagkerfið var opnað á ný með losun fjármagnshafta. Þetta er gjörbreyting á efnahagslegri stöðu landsins og hún tókst með skýrri stefnu og markvissri eftirfylgni. Hagkerfið er núna að kólna eftir mikið og langt hagvaxtarskeið og það má að einhverju leyti segja að ef Ísland væri heimili væri eignastaðan góð en innkoman þyrfti að vera meiri. Með öðrum orðum þarf að auka verðmætasköpun til að standa undir frekari aukningu lífskjara,“ segir Sigurður og kemur fram að það sé hans mat að aðild að EES sé ein forsenda þess að efla samkeppnishæfni landsins enda skapi samningurinn samræmi í starfsumhverfi fyrirtækja á öllu EES-svæðinu.

Stóru verkefnin að bæta lífskjör þjóðarinnar

„Stóru verkefni samfélagsins eru að bæta lífskjör þjóðarinnar. Tíu árum eftir hina alþjóðlegu fjármálakreppu erum við komin í öfundsverða stöðu. Enginn hefði trúað því fyrir 10 árum að Ísland ætti hreina eign í útlöndum á þessum tímapunkti. Það er hins vegar staðan. Varnarleikur til framtíðar mun ekki skila ásættanlegum árangri. Sókn er leiðin fram á við. Sókn í aukna verðmætasköpun sem grundvallar lífskjör okkar í bráð og lengd. Þetta er hið stóra samhengi hlutanna,“ segir Halldór í viðtalinu og heldur áfram: „Það er ekkert því til fyrirstöðu að framtíðin verði bjartari, ef rétt er haldið á spilunum, en þeir uppgangstímar sem við höfum upplifað undanfarið ár. Við verðum að nálgast mál á þann hátt að hægt sé að leysa flókin úrlausnarefni. Það átti ekki að vera hægt að ganga frá uppgjöri slitabúa föllnu bankanna. Það átti ekki að vera hægt að afnema gjaldeyrishöft. Það átti ekki að vera hægt að ná utan um óróa á vinnumarkaði sem lífskjarasamningarnir gerðu. Þetta tókst hins vegar allt saman. Ísland er í einstakri aðstöðu til framtíðar til að verða eftirsótt til búsetu og atvinnurekstrar í alþjóðlegu samhengi. En til þess að það gangi eftir verðum við að hafa trú á sjálfum okkur og fyrir lítið land og smáa þjóð er styrkur í samstarfi við aðra. Það er hluti af sterkri sjálfsmynd þjóðar að vera í samstarfi en keppa á sama tíma. Í kapphlaupi vinnur sá sem hleypur hraðast.“

Markaðurinn / frettabladid.is / Vísir.is, 8. maí 2019.