Fréttasafn



31. jan. 2025 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Mikilvægt að hlúa vel að íslenskum mannvirkjaiðnaði

Íslenskur mannvirkjaiðnaður er meðal stærstu og mikilvægustu stoða landsframleiðslunnar og afar mikilvægt er að haldið verði áfram að hlúa vel að þeim iðnaði. Þau afrek sem mannvirkja­iðnaðurinn og okkar frábæru innviðaverktakar unnu á síðasta ári við að tryggja dreifingu á heitu vatni og verja innviði í Grindavík og í Svartsengi í kappi við glóandi hraunstrauminn eru gott dæmi um mikilvægi mannauðs, þekkingar og tækjabúnaðar sem við höfum yfir að búa innan greinarinnar. Þetta sagði Árni Sigurjónsson, formaður SI, meðal annars í setningarávarpi sínu á Útboðsþingi SI sem fram fór í gær í Háteig á Grand Hótel Reykjavík.

Hér fer ávarp Árna í heild sinni:

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, góðir fundarmenn.

Ég býð ykkur öll velkomin á okkar árlega Útboðsþing Samtaka iðnaðarins, sem haldið er í samstarfi við Samtök innviðaverktaka og Mannvirki – félag verktaka. Þessi viðburður er meðal þeirra rótgrónustu í sögu samtakanna, því fyrsta Útboðsþing SI var haldið árið 1997.

Eins og jafnan á þessum vettvangi verða hér í dag kynnt fyrirhuguð verkleg útboð, bæði nýfjárfestingar og viðhald, á vegum stærstu aðilanna á opinberum markaði. Við færum þeim öllum góðar þakkir fyrir þátttökuna.

Íslenskur mannvirkjaiðnaður er meðal stærstu og mikilvægustu stoða landsframleiðslunnar og afar mikilvægt er að haldið verði áfram að hlúa vel að þeim iðnaði. Þau afrek sem mannvirkja­iðnaðurinn og okkar frábæru innviðaverktakar unnu á síðasta ári við að tryggja dreifingu á heitu vatni og verja innviði í Grindavík og í Svartsengi í kappi við glóandi hraunstrauminn eru gott dæmi um mikilvægi mannauðs, þekkingar og tækjabúnaðar sem við höfum yfir að búa innan greinarinnar. Eins og við gerðum góð skil á síðasta Iðnþingi er bókstaflega allt mögulegt þegar saman fara íslenskt verkvit og íslenskt hugvit með samtakamætti og einlægum vilja til að láta hlutina ganga.

Markaður mannvirkjaiðnaðar hefur löngum verið óstöðugur og þurft að þola óeðlilegar upp- og niðursveiflur. Hafa þær sveiflur gengið í takt við almennar markaðsaðstæður í landinu, oft með ýktari hætti þó, þar sem þessi grein hefur oft á tíðum verið nýtt til sveiflujöfnunar í hagstjórnaraðgerðum hins opinbera. Þetta er saga sem ég þarf vart að rekja í löngu máli í þessum hópi. Nauðsynlegt er að draga úr þessum sveiflum í nýfjárfestingum og viðhaldi innviða eins og nokkur kostur er og fyrirsjáanleiki áætlana aukinn, svo fyrirtæki í mannvirkjaiðnaði geti byggt upp stöðugan rekstrar­grundvöll í hvetjandi starfsumhverfi.

Þá eru fáar atvinnugreinar sem gera kröfu um jafn víðtækt samstarf mismunandi stétta til að koma vöru á markað og mannvirkja­iðnaðurinn. Hvort sem það er uppbygging á íbúðarhúsnæði, innviðum eða stórum opinberum framkvæmdum. Ef við lítum í kringum okkur hér í dag þá blasir sú staðreynd við. Skipulag, hönnun, framkvæmd, eftirlit, byggingarvörur, fjármagn, ráðgjöf, gæðastýring, öryggi – allt þarf þetta að ganga upp svo að úr verði góð og varanleg afurð, almenningi og samfélaginu til heilla og iðnaðinum til sóma. Bein og óbein áhrif innviðafram­kvæmda á efnahag fólks og fyrirtækja og atvinnustig í landinu eru mikil.

Það var ánægjulegt að fá fréttir af nýjum verðbólgutölum í morgun. Sú staðreynd að tólf mánaða verðbólga mælist nú 4,6% og haldi áfram að lækka milli mánaða gefur góð fyrirheit um þá stýrivaxta­ákvörðun sem kynnt verður af peningastefnu­nefnd Seðla­banka Íslands í næstu viku. Það er umtalsvert breytt staða frá því þegar við hittumst hér á þessum vettvangi fyrir tveimur árum og verðbólgan dansaði í kringum 10%. Frá síðasta útboðsþingi hefur ársverð­bólgan svo hjaðnað um meira en tvö prósentustig og væntingar eru um að þessi lækkunarfasi haldi markvisst áfram þar til verðbólgu­markmiði verður náð.

Þetta eru vissulega góðar fréttir og meðal annars í takt við þau markmið sem lagt var upp með við gerð langtímakjarasamninga á almennum vinnumarkaði á síðasta ári. Á þessu tímabili hefur atvinnuleysi ekki aukist svo nokkru nemi og raunar er staðan enn víða þannig að fremur skortir vinnuafl heldur en hitt. Greiningar­aðilar hafa einnig bent á, að eftir stutt samdráttarskeið í vergri landsframleiðslu megi búast við hóflegum hagvexti á þessu ári. Með lækkandi fjármögnunarkostnaði og hagkvæmara starfs­umhverfi eigum við að gera ráð fyrir aukinni fjárfestingu, ekki síst til að ná niður þeirri innviðaskuld sem við stöndum frammi fyrir. Þar horfum við helst til nýrrar ríkisstjórnar um aukið samstarf og ekki síður auknar framkvæmdir.

Og talandi um innviðaskuldina. Í næsta mánuði munum við hjá Samtökum iðnaðarins gefa út og kynna nýja skýrslu um ástand innviða og framtíðarhorfur, sem verður afar áhugavert að bera saman við stöðu mála eins og hún blasti við okkur árin 2021 og 2017, þegar fyrri skýrslur okkar voru kynntar. Engum blöðum er um það að fletta að innviðir landsins höfðu um langt árabil verið fjársveltir og skuldum þannig velt yfir á framtíðina. Við vitum öll sem eitt að mikil og aðkallandi þörf er á fjárfestingum víða, meðal annars í orkuinnviðum, húsnæðismálum og samgöngu­málum. Skortur á nægri uppbyggingu og viðhaldi á þessum sviðum er farinn að þrengja umtalsvert að vaxtargetu hagkerfisins og þar með getu okkar til að skapa góð efnhagsleg lífsgæði fyrir framtíðarkyn­slóðirnar. Ég hvet ykkur öll til að fylgjast vel með í febrúar þegar ný innviðaskýrsla verður kynnt.

Það er von okkar að greining Samtaka iðnaðarins á boðuðum útboðum á verklegum framkvæmdum ársins, ásamt kynningum þátttakenda á þessu þingi nýtist ykkur öllum við áætlanagerð og störf á þessu ári.

Um leið og ég þakka Samtökum innviðaverktaka og Mannvirki – félagi verktaka fyrir samstarfið við undirbúning þingsins, og sömuleiðis þátttakendum í dagskránni hér í dag fyrir sína vinnu, fel ég Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, sviðsstjóra mannvirkja­sviðs SI, fundarstjórnina. Útboðsþing Samtaka iðnaðarins 2025 er hér með sett.

Si_utbodsthing_2025_b-3Árni Sigurjónsson, formaður SI.