Miklir hagsmunir Íslands undir í alþjóðlegu tollastríði
Blikur eru á lofti í alþjóðaviðskiptum vegna fyrirhugaðra tollahækkana Bandaríkjanna á innflutning frá helstu viðskiptalöndum sínum. Ísland á mikið undir sterkum útflutningi og greiðum aðgangi að erlendum mörkuðum, og gæti þessi þróun haft áhrif á íslenskan iðnað.
Samtök iðnaðarins (SI) hafa undanfarna mánuði lagt áherslu á að greina þá hagsmuni sem eru í húfi líkt og kemur fram í nýrri greiningu SI og hafa átt samtöl við fjölmarga félagsmenn sem eiga mikið undir í þessum efnum. Þá hafa samtökin sinnt virkri hagsmunagæslu á þessu sviði.
Miklar hækkanir í vændum
Bandaríkjaforseti undirritaði nýverið tilskipun sem felur í sér 25% tolla á innflutning frá Kanada og Mexíkó og 10% viðbótartolla á innflutning frá Kína. Að auki er líklegt að tollar á vörur frá Evrópusambandinu og Bretlandi hækki á næstunni. Önnur ríki hafa þegar boðað gagnaðgerðir, en talsverð óvissa ríkir um þróun mála.
Evrópumarkaður er stærsti markaður Íslands, en útflutningur til Bandaríkjanna efur aukist á undanförnum árum. Heildarútflutningur iðnaðarvara frá Íslandi til Bandaríkjanna og ESB nam um 422 milljörðum króna árið 2023.
SI sinna öflugri hagsmunagæslu
Til að lágmarka tjón íslenskra fyrirtækja vegna yfirvofandi tollastríðs hafa SI lagt áherslu á virka hagsmunagæslu, bæði innanlands og á alþjóðavettvangi.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, átti nýverið fund með framkvæmdastjórum norrænna samtaka iðnaðar og atvinnulífs, þar sem lögð var áhersla á að Norðurlöndin stæðu saman og beittu sér fyrir frjálsum og fyrirsjáanlegum viðskiptum á alþjóðamörkuðum. Einnig hafa verið góð samskipti við NHO, systursamtök SI í Noregi, þar sem meðal annars hefur verið rætt um sameiginlega hagsmuni Íslands og Noregs í ljósi breytinga á tollum og alþjóðlegu viðskiptaumhverfi.
Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs hjá SI, hefur átt margvíslega fundi á vettvangi ráðgjafarnefndar EFTA vegna þessara mála. Meðal annars með utanríkisráðherrum EFTA ríkjanna í nóvember 2024 í Brussel. Þá fundaði ráðgjafarnefnd EFTA með framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) í Genf í síðustu viku þar sem fjallað var um mögulegt tollastríð. Í Genf funduðu ráðgjafarnefnd og þingmannanefnd EFTA einnig með sendiherrum EFTA ríkjanna gagnvart WTO þar sem tollamálin voru fyrirferðarmikil. Á fundunum komu fram skýr skilaboð um að EFTA ríkin muni gæta sinna ítrustu hagsmuna gagnvart bæði ESB og Bandaríkjunum og þrýsta á um að alþjóðaviðskiptakerfið verði virt.
Á innlendum vettvangi hafa SI átt náið samtal og samstarf við utanríkisráðuneytið og hvatt stjórnvöld til öflugrar hagsmunagæslu, bæði gagnvart Bandaríkjunum og Evrópusambandinu. Brýnt er að stjórnvöld beiti sér bæði til austurs og vesturs til að tryggja hagsmuni Íslands í hvívetna og styrkja samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar á alþjóðamörkuðum.
Nauðsynlegt að bregðast við
Þar sem Ísland byggir góð lífskjör á öflugum útflutningi er mikilvægt að stjórnvöld og atvinnulíf vinni saman að því að verja aðgang að helstu mörkuðum landsins og lágmarka það tjón sem hugsanlegt tollastríð gæti haft í för með sér. SI mun áfram fylgjast náið með þróuninni og vinna að því að gæta hagsmuna íslensks iðnaðar í síbreytilegu alþjóðlegu viðskiptaumhverfi.
Hér er hægt að nálgast greiningu SI.
Viðskiptablaðið, 4. febrúar 2025.
Vísir, 4. febrúar 2025.
RÚV, 4. febrúar 2025.
RÚV, 4. febrúar 2025.