Fréttasafn



7. jún. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Milda þarf áhrif efnahagssamdráttar

Verkefni hagstjórnar nú er að milda efnahagsleg áhrif þess efnahagssamdráttar sem nú vofir yfir. Stöðugleiki í efnahagslegu tilliti er nauðsynleg forsenda áframhaldandi velmegunar og búum við vel að því nú að viðnámsþróttur þjóðarbúsins er mikill eftir uppgang síðustu ára. Þetta kemur meðal annars fram í umsögn Samtaka iðnaðarins um tillögu um breytingu á þingsályktun um fjármálastefnu fyrir árin 2018-2022 sem send hefur verið fjárlaganefnd Alþingis. 

Þar segir að verkefnið nú sé að nýta hagstjórnartækin til að tryggja mjúka lendingu hagkerfisins og undirbyggja hagvöxt til lengri tíma. Það sé því fullt tilefni til þess að nýta svigrúm innan fjármálareglna til að auka við slakann í opinberum fjármálum og í því sambandi leyfa innbyggðum sveiflujöfnurum að virka með þeim hætti sem þeim sé ætlað að gera við þær aðstæður sem nú séu uppi í íslensku efnahagslífi.

Þá benda SI annars vegar á að veruleg óvissa sé um stærð framleiðsluskellsins og hins vegar á mikilvægi þess að fjármálastefna hins opinbera endurspegli þá meginþætti sem líklegastir séu til að efla samkeppnishæfni Íslands um þessar mundir og undirbyggja þar með bætt lífskjör landsmanna litið til framtíðar. 

Þá lýsa samtökin ánægju sinni með það sem fram kemur í tillögu að fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024 að auka eigi framlög til samgöngumála, nýsköpunar og menntunar. Þau hvetja til þess að þessum áherslum verði fylgt eftir þrátt fyrir breyttar efnahagsforsendur. 

Hér er hægt að lesa umsögnina í heild sinni.