Mjög mikill áhugi á íslenskum tölvuleikjum
„Það hefur verið ótrúlega mikið stuð hérna í dag, ótrúlega mikið af fólki. Það hefur verið alveg stöðugur straumur síðan að við opnuðum klukkan 12 og mjög mikill áhugi á þessum íslensku leikjum sem við erum að sýna hérna,“ segir Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, á mbl.is um Icelandic Game Fest sem fór fram í fyrsta skipti í Arena Gaming á Smáratorgi sl. laugardag.
Foreldrar og börn prófa tölvuleiki á yfir 100 leikjatölvum
Í frétt mbl.is kemur fram að þar hafi verið saman komin leikjafyrirtæki landsins til að kynna leiki sína bæði þá sem þegar hafa komið út og þá sem eru í vinnslu og gátu gestir prófað íslenska tölvuleiki á yfir 100 leikjatölvum, hitt hönnuðina á bak við leikina og upplifað kraft, sköpun og framtíð íslenskrar tölvuleikjagerðar með eigin augum. „Það er mjög mikið af foreldrum að koma með börnin sín og maður veit ekki hvort foreldrarnir eru að kynna börnin fyrir heiminum eða hvort þetta eru börnin að kynna foreldra sína fyrir þessum heimi. Það er ótrúlega gaman að sjá hvað það er mikil breidd í fólkinu sem er að koma og kíkja á leikina.“
Í íslenskum tölvuleikjaiðnaði eru 500 starfsmenn í 20 fyrirtækjum
Í frétt mbl.is er Nanna spurð út í sérstöðu íslenska tölvuleikjaiðnaðarins og segir hún til að mynda merkilegt hve vel tölvuleikjafyrirtækin sem starfa hér á landi standa saman og deila ráðum og reynslu sín á milli. Þá sé sömuleiðis eftirtektarvert hversu umfangsmikil atvinnugrein tölvuleikjagerð sé hér á landi. „Það eru alveg 500 starfsmenn í yfir 20 fyrirtækjum og veltan er gífurleg. Hún var til að mynda 80 milljónir dollara árið 2023.“
Icelandic Game Fest verði að árvissum viðburði
Þá kemur fram í frétt mbl.is að Nanna segir að stefnan sé að gera Icelandic Game Fest að árvissum viðburði. „Markmiðið er að kynna Íslendinga fyrir flórunni sem er hérna og ég held að það séu ekkert endilega mjög margir sem gera sér grein fyrir því hve margir íslenskir leikir hafa komið út. Þetta eru 23 leikir sem við erum að sýna hér í dag. Þannig að það er alveg klárlega grundvöllur fyrir því að gera þetta aftur og við myndum svo gjarnan vilja stækka þetta ár frá ári og hafa eitthvað meira í kringum þetta.“
mbl.is, 22. nóvember 2025.
Mikil gróska í íslenskri tölvuleikjaframleiðslu
Halldór Snær Kristjánsson, formaður Samtaka leikjaframleiðanda og framkvæmdastjóri myrkur Games, og Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, mættu í spjall á K100.
Hér er hægt að hlusta á viðtalið.

