Fréttasafn12. jan. 2017 Almennar fréttir Mannvirki

Mörg tækifæri til að gera betur í opinberum innkaupum

Húsfylli var á fundi Samtaka iðnaðarins um opinber innkaup sem fram fór í morgun á Grand Hótel Reykjavík. Þar kom meðal annars fram að ríkið kaupir vörur og þjónustu fyrir rúmlega 90 milljarða króna árlega og svarar umfangið til framlaga ríkisins til Landspítalans og allra heilsugæslustöðva samanlagt. Vakin var athygli á því að alltaf megi gera betur og með nýrri Evrópulöggjöf sem samþykkt var á Alþingi síðastliðið haust gefast mörg tækifæri til betrumbóta en minna en helmingur af innkaupum ríkisins hefur verið í gegnum útboð. Bent var á að það væri dýrt að hafa 200 innkaupastjóra og því mikilvægt að hafa einfalt og gagnsætt ferli.

Arnhild Gjönnes, lögmaður Confederation of Norwegian Enterprise sem eru systursamtök Samtaka atvinnulífsins, flutti áhugavert erindi en hún er sérfræðingur á sviði opinberra innkaupa og leiðir þann málaflokk hjá Business Europe sem eru samtök Evrópskra atvinnurekenda. Arnhild sagði frá því hvernig hægt er að beita opinberum innkaupum til að stuðla að meiri hagkvæmni, gæðum og nýsköpun þar sem nýrri löggjöf er ætlað að stuðla að meira gagnsæi og sanngjarnari samkeppnistöðu.

Dagmar Sigurðardóttir , yfirlögfræðingur Ríkiskaupa, flutti erindi með yfirskriftinni „Kröfur opinberra aðila til fyrirtækja í útboðum – ýmis álitaefni“. Hún fjallaði um kröfur sem settar eru fram í útboðsskilmálum opinberra aðila og hvað fyrirtæki geta tekið til bragðs ef þau telja að kröfurnar séu óhóflegar. Hún skoðaði m.a. úrskurði kærunefndar útboðsmála um fjárhagslegt og tæknilegt hæfi fyrirtækja auk þess sem hún ræddi um auknar áherslur á umhverfisvernd og líftímakostnað vöru  í opinberum útboðum.

Ragnheiður H. Magnúsdóttir , stjórnarformaður Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja, fór yfir tæknibyltinguna sem er framundan sem tengist sýndarveruleika, interneti hluta, gervigreind, vélmenningavæðingu, gagnagnótt og þrívíddarprenturum og hvaða áhrif þær hröðu breytingar gætu haft á opinber innkaup. Hún sagði að íslensk fyrirtæki hafi undanfarin ár sett umtalsverða fjármuni í upplýsingatæknina til að bjóða upp á betri þjónustu, vinna hraðar, styðja við ferla og til að missa ekki af tæknilestinni en það væri ekki að sjá að sami kraftur hvað þetta varðar væri hjá hinu opinbera.

Theodóra Þorsteinsdóttir , þingmaður Bjartrar framtíðar og formaður bæjarráðs Kópavogs, fór yfir hvernig opinber innkaup í Kópavogi væru virkjuð sem mikilvægt stjórntæki til að auka hagkvæmni og gagnsæi í rekstri bæjarins en þar hefur bókhald bæjarins verið opnað. Hún sagði að sífellt þyrfti að leita hagkvæmari og nútímalegri leiða í opinberum rekstri og að opinber innkaup leiki lykilhlutverk til að skapa traust.

Fundarstjóri var Ásdís Kristjánsdóttir , forstöðumaður efnahagssviðs SA.