Nær 70% skattahækkun gatnagerðargjalda stærstu sveitarfélaganna
Skattheimta í formi gatnagerðargjalda átta stærstu sveitarfélaganna hefur hækkað gríðarlega og í sumum þeirra langt umfram hækkun almenns verðlags. Þegar litið er á þróun gatnagerðargjalda fyrir 100 fermetra íbúð í fjölbýli með stæði í bílakjallara má sjá að hún hefur í þessum sveitarfélögum að jafnaði hækkað um 67% eða 1,8 milljón krónur á íbúð á tímabilinu frá 2020 til 2025. Á sama tíma hækkaði byggingarvísitalan um 37% og er hækkun gatnagerðagjalda því talsvert umfram þá hækkun. Voru gatnagerðargjöldin að jafnaði 2,7 milljón króna á hverja 100 fermetra íbúð árið 2020 en voru komin í 4,5 milljón krónur árið 2025.

Gatnagerða- og byggingarréttargjöld hafa á undanförnum árum orðið sífellt stærri kostnaðarliður í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Fyrir fyrirtæki í íbúðaruppbyggingu skiptir fyrirsjáanleiki, stöðugleiki og hófleg gjaldtaka sveitarfélaga miklu máli. Á sama tíma hefur gjaldtaka stærstu sveitarfélaga landsins tekið miklum breytingum til hækkunar, frá árinu 2020.
Sveitarfélögin sem greiningin tekur til eru 8 stærstu sveitarfélög landsins; Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Reykjanesbær, Garðabær, Akureyri, Mosfellsbær og Árborg. Í greiningunni er aðeins verið að fjalla um uppbyggingu íbúða í fjölbýlishúsum en hún hefur verið lang stærsti hluti uppbyggingar íbúðar á síðustu árum.
Gatnagerðargjöld hafa hækkað umtalsvert í nær öllum stærstu sveitarfélögum landsins frá ársbyrjun 2020 til dagsins í dag en hækkanirnar á tímabilinu skýrast fyrst og fremst af tvennu: hækkun byggingarvísitölu og breytingum á álagningarhlutfalli sveitarfélaga.
Hækkanir á gatnagerðargjöldum á árunum 2020-2025 ráðast annars vegar af 37% hækkun á byggingarvísitölu og hins vegar af breytingum sveitarfélaga á álagningarhlutfalli, sem getur að hámarki verið 15% af verðgrunni fyrir gatnagerðargjöld. Byggingarvísitala hefur hækkað um 37% frá ársbyrjun 2020 og endurspeglast sú hækkun í hærri gatnagerðargjöldum allra sveitarfélaga. Þótt vísitöluhækkunin skýri hluta þróunarinnar hafa mörg sveitarfélög á sama tíma hækkað álagningarhlutfallið verulega, eða haldið því í hámarki, sem hefur leitt til umtalsvert meiri gjaldtöku og þannig aukið kostnað við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.

Mismunandi gjaldtaka eftir sveitarfélögum
Sveitarfélögin haga sér mjög ólíkt með tilliti til þessarar heimildar. Mosfellsbær og Akureyri eru bæði með álagningarhlutfallið í lögbundnu hámarki, 15%. Mosfellsbær hefur haldið hlutfallinu óbreyttu frá 2020 en Akureyri hefur hækkað álagningarhlutfallið í nokkrum skrefum frá árinu 2020 en hlutfallið stóð í 5% í upphafi þess árs. Skýrir það stærstan hluta aukinnar gjaldtöku sveitarfélagsins á gatnagerðargjöldum á tímabilinu.
Önnur sveitarfélög hafa einnig hækkað álagningarhlutfall gatnagerðargjalda á tímabilinu. Kópavogsbær hækkaði hlutfallið úr tæpum 5% í 10% og Reykjanesbær sömuleiðis. Reykjavík hækkaði á árinu hlutfallið úr 5,4% í 10% fyrir íbúðir í fjölbýli og til viðbótar var samþykkt að innheimta gatnagerðargjald að fullu fyrir bílakjallara. Áður voru innheimt gatnagerðargjöld af bílakjöllurum sem námu 10% af fullu gjaldi á hvern fermetra. Hin sveitarfélögin rukka 10-25% af fullu gjaldi á hvern fermetra.
Hafnarfjarðarkaupstaður er eina sveitarfélagið sem lækkaði álagningarhlutfallið á tímabilinu sem um ræðir. Framan af var hlutfallið í lögbundnu hámarki en árið 2022 var það lækkað í 6%.
Hæst eru gatnagerðargjöldin í Mosfellsbæ og á Akureyri, hvar gjöld miðað við 100m2 íbúð í fjölbýli með stæði í bílakjallara eru 6 milljónir kr. á íbúð. Á Akureyri, þar sem gatnagerðargjöldin hafa hækkað mest á tímabilinu, nemur hækkunin um 4,6 milljónum króna. Í Mosfellsbæ hafa gjöldin hækkað um ríflega 1,6 milljónir króna, alfarið vegna hækkunar á byggingarvísitölu. Gatnagerðargjöld hækka næst mest í Reykjavík á tímabilinu, úr 1,5 milljónum króna í 4,7 milljónir, eða um tæplega 3,2 milljónir króna.
Í Kópavogi og Reykjanesbæ hafa gjöldin einnig hækkað umtalsvert, eða um rúmar 2,5 milljónir króna á íbúð. Í Árborg hafa gatnagerðargjöld hækkað um ríflega 1,1 milljón og í Garðabæ um 900 þúsund. Þá er Hafnarfjörður eina sveitarfélagið þar sem gjöldin hafa lækkað á tímabilinu, eða um nær 2 milljónir króna. Er það vegna lækkunar á álagningarhlutfallinu, úr 15% í 6%.

Gatnagerðargjöld af bílakjöllurum hafa einnig hækkað, sér í lagi í Reykjavíkurborg. Ef miðað er við að eitt bílastæði fylgi hverri íbúð þá hefur gatnagerðargjald á hverja íbúð hækkað úr 37 þúsund kr. í 942 þúsund kr. eftir nýlegar breytingar á gjaldskrá borgarinnar. Að auki hafa verið innleidd ný gjöld á bíla og hjólageymslur ofanjarðar, en nú er orðin skylda að byggja hjólageymslur.

