Fréttasafn



27. nóv. 2025 Almennar fréttir Efnahagsmál Fréttatilkynning

Nær 70% skattahækkun gatnagerðargjalda stærstu sveitarfélaganna

Skattheimta í formi gatnagerðargjalda átta stærstu sveitarfélaganna hefur hækkað gríðarlega og í sumum þeirra langt umfram hækkun almenns verðlags. Þegar litið er á þróun gatnagerðargjalda fyrir 100 fermetra íbúð í fjölbýli með stæði í bílakjallara má sjá að hún hefur í þessum sveitarfélögum að jafnaði hækkað um 67% eða 1,8 milljón krónur á íbúð á tímabilinu frá 2020 til 2025. Á sama tíma hækkaði byggingarvísitalan um 37% og er hækkun gatnagerðagjalda því talsvert umfram þá hækkun. Voru gatnagerðargjöldin að jafnaði 2,7 milljón króna á hverja 100 fermetra íbúð árið 2020 en voru komin í 4,5 milljón krónur árið 2025.

Gatnagerdargjold

Gatnagerða- og byggingarréttargjöld hafa á undanförnum árum orðið sífellt stærri kostnaðarliður í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Fyrir fyrirtæki í íbúðaruppbyggingu skiptir fyrirsjáanleiki, stöðugleiki og hófleg gjaldtaka sveitarfélaga miklu máli. Á sama tíma hefur gjaldtaka stærstu sveitarfélaga landsins tekið miklum breytingum til hækkunar, frá árinu 2020. 

Sveitarfélögin sem greiningin tekur til eru 8 stærstu sveitarfélög landsins; Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Reykjanesbær, Garðabær, Akureyri, Mosfellsbær og Árborg. Í greiningunni er aðeins verið að fjalla um uppbyggingu íbúða í fjölbýlishúsum en hún hefur verið lang stærsti hluti uppbyggingar íbúðar á síðustu árum.

Gatnagerðargjöld hafa hækkað umtalsvert í nær öllum stærstu sveitarfélögum landsins frá ársbyrjun 2020 til dagsins í dag en hækkanirnar á tímabilinu skýrast fyrst og fremst af tvennu: hækkun byggingarvísitölu og breytingum á álagningarhlutfalli sveitarfélaga.

Hækkanir á gatnagerðargjöldum á árunum 2020-2025 ráðast annars vegar af 37% hækkun á byggingarvísitölu og hins vegar af breytingum sveitarfélaga á álagningarhlutfalli, sem getur að hámarki verið 15% af verðgrunni fyrir gatnagerðargjöld. Byggingarvísitala hefur hækkað um 37% frá ársbyrjun 2020 og endurspeglast sú hækkun í hærri gatnagerðargjöldum allra sveitarfélaga. Þótt vísitöluhækkunin skýri hluta þróunarinnar hafa mörg sveitarfélög á sama tíma hækkað álagningarhlutfallið verulega, eða haldið því í hámarki, sem hefur leitt til umtalsvert meiri gjaldtöku og þannig aukið kostnað við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.

Gatnagerdargjold_2

 

Mismunandi gjaldtaka eftir sveitarfélögum

Sveitarfélögin haga sér mjög ólíkt með tilliti til þessarar heimildar. Mosfellsbær og Akureyri eru bæði með álagningarhlutfallið í lögbundnu hámarki, 15%. Mosfellsbær hefur haldið hlutfallinu óbreyttu frá 2020 en Akureyri hefur hækkað álagningarhlutfallið í nokkrum skrefum frá árinu 2020 en hlutfallið stóð í 5% í upphafi þess árs. Skýrir það stærstan hluta aukinnar gjaldtöku sveitarfélagsins á gatnagerðargjöldum á tímabilinu.

Önnur sveitarfélög hafa einnig hækkað álagningarhlutfall gatnagerðargjalda á tímabilinu. Kópavogsbær hækkaði hlutfallið úr tæpum 5% í 10% og Reykjanesbær sömuleiðis. Reykjavík hækkaði á árinu hlutfallið úr 5,4% í 10% fyrir íbúðir í fjölbýli og til viðbótar var samþykkt að innheimta gatnagerðargjald að fullu fyrir bílakjallara. Áður voru innheimt gatnagerðargjöld af bílakjöllurum sem námu 10% af fullu gjaldi á hvern fermetra. Hin sveitarfélögin rukka 10-25% af fullu gjaldi á hvern fermetra.

Hafnarfjarðarkaupstaður er eina sveitarfélagið sem lækkaði álagningarhlutfallið á tímabilinu sem um ræðir. Framan af var hlutfallið í lögbundnu hámarki en árið 2022 var það lækkað í 6%.

Hæst eru gatnagerðargjöldin í Mosfellsbæ og á Akureyri, hvar gjöld miðað við 100m2 íbúð í fjölbýli með stæði í bílakjallara eru 6 milljónir kr. á íbúð. Á Akureyri, þar sem gatnagerðargjöldin hafa hækkað mest á tímabilinu, nemur hækkunin um 4,6 milljónum króna. Í Mosfellsbæ hafa gjöldin hækkað um ríflega 1,6 milljónir króna, alfarið vegna hækkunar á byggingarvísitölu. Gatnagerðargjöld hækka næst mest í Reykjavík á tímabilinu, úr 1,5 milljónum króna í 4,7 milljónir, eða um tæplega 3,2 milljónir króna. 

Í Kópavogi og Reykjanesbæ hafa gjöldin einnig hækkað umtalsvert, eða um rúmar 2,5 milljónir króna á íbúð. Í Árborg hafa gatnagerðargjöld hækkað um ríflega 1,1 milljón og í Garðabæ um 900 þúsund. Þá er Hafnarfjörður eina sveitarfélagið þar sem gjöldin hafa lækkað á tímabilinu, eða um nær 2 milljónir króna. Er það vegna lækkunar á álagningarhlutfallinu, úr 15% í 6%.

Gatnagerdargjold-fyrir-bilastaedi

Gatnagerðargjöld af bílakjöllurum hafa einnig hækkað, sér í lagi í Reykjavíkurborg. Ef miðað er við að eitt bílastæði fylgi hverri íbúð þá hefur gatnagerðargjald á hverja íbúð hækkað úr 37 þúsund kr. í 942 þúsund kr. eftir nýlegar breytingar á gjaldskrá borgarinnar. Að auki hafa verið innleidd ný gjöld á bíla og hjólageymslur ofanjarðar, en nú er orðin skylda að byggja hjólageymslur.