Nemendur í jarðvirkjun fá öryggis- og vinnufatnað
Félag vinnuvélaeigenda styrkti kaup á öryggis- og vinnufatnaði fyrir nemendur í jarðvirkjun í Tækniskólanum. Fatnaðurinn er liður í því að tryggja öryggi nema í vettvangsheimsóknum þeirra tengdu náminu. Óskar Sigvaldason, formaður Félags vinnuvélaeigenda, og Bjartmar Steinn Guðjónsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, litu í heimsókn til nemanna sem fengu buxur, boli, jakka og hjálm.
Nám í jarðvirkjun hófst af krafti fyrr í haust í Tækniskólanum og eru nemendur almennt ánægðir með námið og spenntir fyrir framhaldinu. Nemendurnir hafa í námi sínu fengið að kynnast bæði bóklegu námi tengdu jarðvirkjun og verklegum framkvæmdum, bæði á vettvangi og í gegnum vinnuvélaherma sem Tækniskólinn fjárfesti í vegna námsins. Aðspurðir kváðust nemendurnir ánægðir með þá reynslu sem þeir öðlast í hermunum en í þeim gefst tækifæri til að kynnast umhverfi og hegðun vinnuvéla í öruggu starfsumhverfi.