Fréttasafn



5. júl. 2024 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Netkosning um Kerecis í Evrópsku nýsköpunarverðlaununum

Einkaleyfastofa Evrópu (European Patent Office) tilnefndi í vor Guðmund Fertram Sigurjónsson og Kerecis til Evrópsku nýsköpunarverðlaunanna. Tilnefningin er vegna einkaleyfisins sem sáraroð Kerecis byggir á. Tilnefningin er í flokki framleiðslu og eru þrír uppfinningamenn tilnefndir og verða úrslitin kunngjörð við hátíðlega athöfn á Möltu  9. júlí. Netkosning mun ráða því hvaða uppfinningamenn fá verðlaunin. Hægt er að greiða Guðmundi Fertram og sáraroði Kerecis atkvæði á vefslóðinni https://bit.ly/epoaward eða með því að skanna inn kóðann:

Bit.ly_epoaward


Guðmundur Fertram segir í tilkynningu þessa tilnefningu afar mikilsverða, enda sjái Einkaleyfastofa Evrópu um öll einkaleyfi í Evrópu. Tilnefningin sé auðvitað mikill heiður, en hitt skipti meira máli að vekja athygli á sáraroðinu frá Kerecis og stuðla þannig að aukinni notkun. „Árangurinn af notkuninni er oft á tíðum ótrúlegur og við erum stolt af því að stuðla að bættri heilsu fólks um allan heim. Þrátt fyrir árangurinn eru enn margir sem þekkja ekki til Kerecis. Verðlaun af þessu tagi geta svo sannarlega hjálpað til við að breiða út þekkingu á íslenska sáraroðinu og þannig orðið til þess að fleiri sjúklingar í neyð fái notið hennar,“ segir Guðmundur Fertram. 

Almenna netkosningin hefur staðið í nokkrar vikur og getur almenningur kosið á hverjum einasta degi. Keppinautar Guðmundar Fertrams koma úr talsvert stærri samfélögum en hann og Fertram er hæfilega bjartsýnn á sigur í netkosningunni. „Við höfum nú ekki staðið í sérstakri kosningabaráttu, enda erum við upptekin við að koma vörunni okkar í hendur lækna og hjálpa fólki. Við gleðjumst yfir hverju atkvæði sem við fáum og vonum það besta, en hugur minn er frekar hjá sjúklingum um allan heim sem þurfa hjálp.“