Fréttasafn



13. okt. 2025 Almennar fréttir Efnahagsmál Fréttatilkynning

Nóbelsverðlaun veitt fyrir að sýna fram á að nýsköpun knýr hagvöxt

Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 2025 voru veitt í dag fyrir rannsóknir sem varpa ljósi á hvernig nýsköpun og tækniþróun eru undirstaða sjálfbærs hagvaxtar og bættra lífskjara til lengri tíma. Með verðlaununum er undirstrikað hvernig öflugur iðnaður og virkt nýsköpunarumhverfi skapar verðmæti og eykur velsæld í samfélögum. Nýsköpun er framþróun í iðnaði. Nóbelsverðlaunin í ár endurspegla mikilvægi þeirra þátta sem Samtök iðnaðarins leggja áherslu á; hvatar til rannsókna og þróunar eru öflugasta tólið í verkfærakistu ríkisins til að stuðla að nýsköpun í atvinnulífinu.

Nýsköpun grundvöllur langtímahagvaxtar

Samkvæmt rökstuðningi verðlaunanefndarinnar hjá Konunglegu sænsku vísindaakademíunni byggja rannsóknir verðlaunahafanna á greiningu á því hvernig framfarir í tækni og nýsköpun leiða til aukinnar framleiðni og bættra lífskjara. Þar kemur skýrt fram að lönd sem hvetja til nýsköpunar ná betri árangri í að bæta lífskjör landsmanna en önnur.

Iðnaður í lykilhlutverki

Rannsóknir Nóbelsverðlaunahafanna að þessu sinni sýna hvernig iðnaður og framleiðsla gegna lykilhlutverki í því að umbreyta hugmyndum í verðmæti og auka samkeppnishæfni þjóða. Með því að skapa umhverfi sem hvetur til rannsókna og þróunar og þar með nýsköpunar leiðir það til að ný tækni og nýjar vörur verða til og ný tækifæri á vinnumarkaði myndast og verðmætasköpun eykst. Tækniframfarir gerast ekki í tómarúmi. Þær eru afurð umhverfis sem hvetur til nýsköpunar.

Mikilvægt að hvetja til nýsköpunar

Vöxtur hugverkaiðnaðar hér á landi á síðustu árum sýnir að hvatar til rannsókna og þróunar virka. Útflutningstekjur hugverkaiðnaðar námu 310 milljörðum króna árið 2024 og hafa þær ríflega fimmfaldast frá því árið 2009. Hugverkaiðnaður er fjórða stoð útflutnings á Íslandi en útflutningstekjur greinarinnar námu 16% af heildarútflutningstekjum Íslands á síðasta ári. Vöxtur greinarinnar felur í sér aukna verðmætasköpun, aukinn efnahagslegan stöðugleika og fleiri háframleiðnistörf.

Samtök iðnaðarins hafa ítrekað bent á að fjárfesting í rannsóknum og þróun er undirstaða hugverkaiðnaðar en hugvit og sérhæfður mannauður eru helstu auðlindir greinarinnar. Með því að hlúa að þessum drifkröftum eru lagðar traustar undirstöður að bættum lífskjörum og sjálfbærum hagvexti.

Samtök iðnaðarins minna á að til að viðhalda samkeppnishæfni og skapa framtíðarstörf þurfi áfram að fjárfesta í þekkingu, tækni og sköpunarkrafti íslensks iðnaðar. Verðlaunin í ár staðfesta að nýsköpun er ekki aðeins drifkraftur hagvaxtar, heldur einnig lykillinn að öflugra samfélagi.

Fig6_ek_en_25