Fréttasafn



15. jan. 2021 Almennar fréttir Félag blikksmiðjueigenda Iðnaður og hugverk Mannvirki Orka og umhverfi

Norrænar blikksmiðjur draga úr magni málmúrgangs

Félag blikksmiðjueigenda tekur þátt í samstarfi við Samtök blikksmiðjueigenda á Norðurlöndum um sameiginlegt verkefni til að draga úr magni málmúrgangs frá norrænum blikksmiðum og er verkefnið fjármagnað að hluta til frá Nordic Innovation. Samstarfið felst í flokkun á öllu sorpi fyrirtækjanna auk þess sem skoðaðir eru möguleikar á að nýta eða endurnýta afgangs málma eða afklippur sem falla til á verkstæðunum. 

Formaður Félags blikksmiðjueigenda, Sævar Jónsson, segir það mikilvægasta sem við gerum sé að draga úr magni úrgangs og síðan nota afurðirnar aftur. „Það verður engu að síður málmúrgangur eftir þetta en hér munum við einbeita okkur að réttri endurvinnslu,“ segir Sævar. „Við höfum það markmið að draga úr okkar úrgangi um 30%, þ.e. 4-5.000 tonn á ári. Þetta mun draga verulega úr umhverfisspori í greininni, auk þess sem það hefur jákvæð áhrif á grunnstarfsemi fyrirtækjanna. Ef við náum þessu fram, munu allir sigra.“ 

Fagfélög í Svíþjóð, Danmörku, Íslandi og Noregi

Þetta er í fyrsta skipti sem fjögur norræn fagfélög, Plåt och vent (Svíþjóð), Tekniq (Danmörk), Félag bikksmiðueigenda Íslandi (FBE) og Ventilasjons- og blikkenslagerbedriftenes Landsforbund (Noregur,) vinna saman að verkefni af þessari stærðargráðu.

Verkefninu verður stýrt af norska Ventilasjons- og blikkenslagerbedriftens Landsforbund (VBL) og söfnun gagna um núverandi stöðu er þegar hafin í Noregi og verið að vinna í vali á fyrirtækjum á Íslandi. Aðalverkefnið hófst 1. september og á að ljúka 31. mars 2022.

Markmið verkefnisins er þríþætt:

  1. Minnka málmúrgang iðnaðarins um allt að 30%. Þetta mun draga verulega úr útgjöldum einstakra fyrirtækja vegna meðhöndlunar úrgangs, auk þess að tryggja að iðnaðurinn fylgi gildandi og framtíðarlöggjöf sem tengist úrgangi.
  2. Gera blikksmíðaiðnaðinn sýnilegan sem aðlaðandi og nútímalegan samstarfsaðila fyrir byggingariðnaðinn almennt.
  3. Stuðla að sjálfbærari byggingariðnaði.

Samstarfsaðilar hafa valið nokkrar blikksmiðjur í hverju landi fyrir sig, þar sem ýmsar aðferðir verða prófaðar til að draga úr úrgangi hjá þeim og verður árangri þeirrar vinnu deilt með öðrum blikksmiðjum á Norðurlöndunum. Þær blikksmiðjur sem hafa verið valdar í þetta verkefni hér á landi eru Þ.H. Blikk á Selfossi og Blikksmiðja Guðmundar á Akranesi. Munu þessar blikksmiðjur fá styrk frá norrænu samtökunum til þess að gera þessar rannsóknir, skrá úrgang, afskurð ásamt því að halda skrá yfir um hvaða málma er um að ræða.

Bakgrunn verkefnisins er að finna í úrgangspýramídanum eða Zero Waste Hierarchy sem er líkan sem sýnir forgangsröðun í norrænum og evrópskum úrgangs- og endurvinnslustefnum. Frekari upplýsingar eru á vefsíðunni zerowasteeurope.eu.

Zero_Waste_Europe_zero_waste_hierarchy_2019-1024x724