Fréttasafn



28. jan. 2021 Almennar fréttir Mannvirki Samtök arkitektastofa

Norrænir arkitektar ræða áhrif COVID-19 á greinina

Í morgun fór fram sameiginlegur fundur samtaka arkitektastofa á Norðurlöndunum með þátttöku Samtaka arkitektastofa, SAMARK. Fulltrúar frá Íslandi, Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi sátu fundinn. Í upphafi fundar var farið yfir stöðu greinarinnar í efnahagslegu samhengi vegna áhrifa COVID-19.

Velta arkitektastofa á Íslandi minnkað um 20% 

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, hélt erindi fyrir hönd SAMARK. Hann fór almennt yfir efnahagslega stöðu landsins og þau áhrif sem COVID-19 hefur haft. Í erindi Ingólfs kom fram að velta arkitektastofa á Íslandi hafi minnkað um u.þ.b. 20% sl. ár. Ekki hafi orðið eins mikill samdráttur hjá verkfræðistofum og megi leiða getum að því að það sé vegna innspýtingu ríkisins í fjárfestingar í innviðum sem hafi skilað sér betur til verkfræðistofanna. Ingólfur sagði frá úrræðum sem ríkisstjórnin hefur gripið til til að mæta efnahagslegum áhrifum kórónuveirunnar, m.a. aukin fjárfesting í innviðum og „Allir vinna“ átakið sem hefur haft góð áhrif á m.a. á arkitektagreinina. Hér er hægt að nálgast glærur Ingólfs. 

Útgefnum byggingarleyfum fækkað um 10% í Finnlandi

Velta arkitektastofa hefur minnkað umtalsvert í Noregi frá 2018. Í Finnlandi hefur útgefnum byggingarleyfum fækkað um 10% í kjölfar COVID-19 og í Svíþjóð hefur velta 60-80% aðildarfyrirtækjanna minnkað. Í Danmörku hefur ástandið haft hvað mest áhrif á minni arkitektastofurnar en greinin hefur brugðist hratt við. 

Bæta upplifanir í gegnum hönnun

Þá voru tvö málefni á dagskrá fundarins sem voru kynnt og rædd, þ.e. „Relevance of architecture post COVID-19“ og „How to restart green global transition“.  Jón Ólafur Ólafsson, formaður SAMARK, velti upp hvaða áhrif COVID-19 mun hafa í för með sér fyrir greinina hér á landi. Hann kom m.a. inn á þau áhrif sem túrisminn hefur haft en hann hefur hækkað kröfurnar þegar kemur að ferðamannastöðum á Íslandi. Aukin þörf er nú fyrir að bæta upplifanir í gegnum hönnun á nærumhverfi okkar. Hann fór yfir áhrif COVID-19 á greinina – hvernig verkefnin breytast og tækifæri skapast til að taka þátt í viðskiptaþróun. Fram kom að mikilvægt væri að huga að og tryggja líftíma hönnunarinnar í staðinn fyrir að þróa skammtímalausnir.

Fundur-28-01-2021-1

Fundur-28-01-2021-2