Fréttasafn8. apr. 2021 Almennar fréttir Félag blikksmiðjueigenda Mannvirki

Norrænir blikksmiðjueigendur bera saman bækur

Árlegur vorfundur með norrænum systursamtökum Félags blikksmiðjueigenda fór fram rafrænt í dag en um er að ræða yfir 50 ára gamalt samstarf. Tilgangur fundanna er að bera saman bækur og fara yfir stöðu greinarinnar.

Á fundinum var m.a. rætt um sameiginlegt verkefni sem félögin standa að og miðar að því að draga úr magni málmúrgangs frá norrænum blikksmiðum. Verkefnið er fjármagnað að hluta til frá Nordic Innovation og felur í sér flokkun á öllu sorpi fyrirtækjanna auk þess sem skoðaðir eru möguleikar á að nýta eða endurnýta afgangs-málma eða afklippur sem falla til á verkstæðunum.

Staða landanna var einnig rædd út frá áhrifum COVID-19 og farið var yfir spár atvinnurekenda um stöðu greinarinnar á komandi mánuðum. Gangur virðist áfram vera í greininni í öllum löndunum. Nýliðun í faginu var auk þess rædd en skortur á henni er áhyggjuefni á öllum Norðurlöndunum. Norðmenn kynntu í þeim efnum nýtt vel heppnað átak sitt til að fjölga nemendum í blikksmíði sem hefur skilað þeim talsverðum árangri.

Hér má sjá myndbandið:

https://www.youtube.com/watch?v=dQuno6INKJM

Félög norrænna blikksmiðjueigenda héldu sinn árlega vorfund með rafrænum hætti. Meðal þeirra sem sátu fundinn voru Sævar Jónsson, formaður Félags blikksmiðjueigenda, og Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI.