Norrænir vinnuvélaeigendur funda á Íslandi
Félag vinnuvélaeigenda, FVE, stóð fyrir norrænum fundi hér á landi fyrir systursamtök sín dagana 4.-5. október sl. Fulltrúar Íslands á fundinum voru Vilhjálmur Þór Matthíasson, formaður FVE, Gísli Elí Guðnason, varaformaður FVE, Pétur Kristjánsson, stjórnarmaður FVE, og Bjartmar Steinn Guðjónsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI.
Um er að ræða árlegan viðburður þar sem fulltrúar systursamtaka FVE á Norðurlöndunum koma saman og ræða almennt um stöðu greinarinnar og fagleg áherslumál í hverju landi. Fundurinn í Reykjavík hófst með yfirferð á landaskýrslu hvers lands fyrir sig þar sem farið var m.a. yfir helstu breytingar á stjórnmála-, laga- og reglugerðarumhverfi, markaðsaðstæður, helstu áherslumál hverra samtaka fyrir sig á komandi misserum og áhrif Covid-19 og stríðsins í Úkraínu á rekstur aðildarfyrirtækja samtakanna. Eftir yfirferð landaskýrslna ræddu fundarmenn um áskoranir fyrirtækja þegar kemur að sjálfbærni og orkuskiptum vinnuvéla auk þess sem farið var yfir vinnumarkaðstengd málefni og kjarasamningaumhverfi hvers ríkis fyrir sig.
Áður en fundi var slitið var ákveðið að dönsku vinnuvélaeigendasamtökin skyldu sinna ábyrgð á skipulagningu næstu ráðstefnu að ári liðnu.