Markvert framlag hátækni- og sprotafyrirtækja til endurreisnar og trú á framtíðina
Fulltrúar fyrirtækja, stuðningsaðila og alþingismenn troðfylltu húsakynni CCP á Hátækni- og sprotaþingi 2009 sem fór fram föstudaginn 6. nóvember.
Það ríkir engin kreppa í hugarfari stjórnenda hátækni-og sprotafyrirtækja, heldur trú á bjarta framtíð. Árangurinn blasir líka við þrátt fyrir erfið rekstrarskilyrði á undanförnum árum (sjá glærur fyrirtækja). Með frumvörpum sem miða að því að styðja við uppbyggingu nýsköpunarfyrirtækja, myndarlegri eflingu Tækniþróunarsjóðs, markvissu nýsköpunarstarfi í tengslum við opinber innkaup, straumlínulögun stuðnings umhverfisins og stuðningi við útflutningsstarfsemi geta hátækni- og sprotafyrirtæki orðið ein meginstoð hagvaxtar og uppspretta vel launaðra starfa á Íslandi á komandi árum.
Meðal tillaga og ábendinga sem fram komu í þingnefndum um einstök mál má lesa eftirfarandi skilboð til stjórnvalda.
- Fagnað er framkomnum frumvörpum til laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki í formi endurgreiðslu rannsókna- og þróunarkostnaðar og skattalega hvata fyrir fjárfesta, en skoða þarf betur viðmiðunarmörk og ferli í nokkrum greinum frumvarpanna áður en þau verða að lögum um næstu áramót.
- Þrefalda þarf framlög til Tækniþróunarsjóðs og endurskoða skipulag, aðgengi og ferli með aukna verðmætasköpun og útflutning tækni- og þekkingarlausna að leiðarljósi.
- Nýta þarf vel öll tækifæri til nýsköpunar og þróunar nýrra og hagkvæmari lausna sem geta hentað til útflutnings í tengslum við stærri opinberar fjárfestingar, m.a. í heilbrigðis- og menntakerfinu og í orku- og umhverfismálum.
- Straumlínulaga þarf stuðnings-, upplýsinga- og þekkingarumhverfi nýsköpunar með hraða uppbyggingu hátækni- og sprotafyrirtækja að markmiði.
- Stórefla þarf stuðning við útflutningsstarfsemi tækni- og nýsköpunarfyrirtækja og treysta ímynd Íslands á erlendum mörkuðum, m.a. á grunni nýsköpunar, þekkingar og sjálfbærni.
Sjá má allar þingnefndartillögur hér. Neðar í umfjölluninni má einnig smella á hverja tillögu fyrir sig og glærur framsögumanna.
Hátækni- og sprotaþing er samstarfsverkefni Hátækni- og sprotavettvangs, Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Samtaka íslenskra líftæknifyrirtækja, Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja og Samtaka leikjafyrirtækja, þingflokka stjórnmálaflokka, ráðuneyta iðnaðar, utanríkis, mennta- og fjármála, háskóla og aðila stoðkerfis og atvinnulífs.
Hátækni- og sprotaþing - þétt og þaulskipulögð dagskrá - framlag til endurreisnar -
Á Hátækni- og sprotaþingi 2009 var varpað ljósi á framtíð hátækni- og sprotafyrirtækja á Íslandi og ræddar áherslur í starfsskilyrðum þessara fyrirtækja sem þurfa að vera fyrir hendi til að sú framtíð geti orðið að veruleika. Efni þingsins byggði á stefnumótunarstarfi sem Samtök iðnaðarins hafa staðið fyrir á undanförnum árum ásamt forsvarsmönnum fyrirtækja í hátæknigreinum og aðilum úr stoðkerfinu. Stór hópur fólks kom að undirbúningi þingsins jafnt frá fyrirtækjum, stoðkerfi og þingflokkum. Í aðdraganda þingsins var alþingismönnum boðið í fyrirtækjaheimsóknir til að kynnast betur starfi fyrirtækjanna. Tillögur um umbætur í starfsumhverfi fyrirtækjanna voru mótaðar í ellefu undirbúningshópum og ræddar í þingnefndum þingsins.
Eftir að Hilmar V. Pétursson, framkvæmdastjóri CCP og gestgjafi fundarins hafði boðið þinggesti velkoma setti iðnaðarráðherra Katrín Júlíusdóttir þingið og sagði tíma hátækni- og sprotafyrirtækja kominn. Það væri mikill innblástur að koma á þingið og finna þá bjartsýni og framsækni sem einkennir hátækni- og sprotageirann sem minnir á enska orðatiltækið: „When the going gets tough the tough get going.“ Hún sagðist vilja reyna að standa undir „öllum kröfum um að verja og helst efla opinbera samkeppnissjóði til verkefna í atvinnulífinu, gera stoðkerfi atvinnulífsins markvissara og skilvirkara og styðja þannig við nýsköpun og sprotastarf“. „Í kjölfar rányrkju á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum og hruns fjármálakerfisins er hugtakið sjálfbær þróun annað lykilhugtak sem við hljótum að byggja á“. „Sagan kennir okkur líka að eina raunverulega leiðin út úr efnahagssamdrætti er aukin verðmætasköpun“. Hún sagði að lokum „Hátækni- og sprotaþingið færi með eitt af fjöreggjum okkar Íslendinga í störfum sínum. Það væri í góðum höndum og hún vænti mikils af þinginu“.
Eftir setningarræðu iðnaðarráðherra var gengið til dagskrár undir stjórn Davíðs Lúðvíkssonar hjá Samtökum iðnaðarins. Í fyrsta hluta þingsins var fjallað um starfsskilyrði og uppbyggingu hátækni- og sprotafyrirtækja á Íslandi.
Uppbygging, tölfræði og starfsskilyrði hátækni- og sprotafyrirtækja á Íslandi
Jón Ágúst Þorsteinsson,formaður Samtaka Sprotafyrirtækja og framkvæmdastjóri Marorku ehf. hélt inngangserindi um stöðu og starfsumhverfi hátækni- og sprotafyrirtækja undanfarin ár. Jón lagði í erindi sínu áherslu á að skoða þurfi atvinnulífið á Íslandi heildstætt og hvernig megi þróa stöðugleika og traust „án umskipta, hruns, kreppu og umbyltinga“. Hér þarf langtímahugsun og skýra stefnumótun. Á þeim tímamótum sem við stæðum í dag ættum „við a.m.k. tvo valkosti“. „Annar er að halda áfram á sömu braut náttúrunýtingar með tilheyrandi sveiflum, togstreitu og nagandi óvissu í ósjálfbæru atvinnulífi“. „Hinn er kostur mannauðsvirkjana“. Sá kostur kalli á skipulag og styrkari innviði, áætlanir og nýjar tengingar mennta- og atvinnulífs í markvissum alþjóðlegum samskiptum. Hér þyrfti að greina stöðu, skilgreina markmið, leiðir og aðgerðir til 5, 10 og 20 ára. Tvö stærstu skrefin í atvinnusögu Íslendinga hefðu sínum tíma verið á sviði sjávarútvegs og orkunýtingar. „Nú stöndum við frammi fyrir því þriðja. Af hverju hikum við? Nú er lag.“
Bjarni Gylfason, hagfræðingur Samtaka iðnaðarins rakti þróun hátækniiðnaðar í tölum. Bjarni sagði m.a. að erfitt væri að nálgast tölur um þróun hátæknigreina í opinberri hagtölugerð, þar sem fyrirtækin dreifðust á margar atvinnugreinar þvert á hefðbundna ISAT-flokkun. Tölur sem með talsverðri fyrirhöfn mætti draga saman sýndu þó að á meðan uppsveiflan í fjármálakerfinu og ofurgengi íslensku krónunnar hefðu verið alls ráðandi hefði vöxtur og þróun útflutnings hátæknifyrirtækja átt erfitt uppdráttar, enda ljóst að stærri fyrirtækin hefðu fyrst og fremst vaxið erlendis, en minni fyrirtækin hafi þurft að fara sér mun hægar og bíða af sér erfið starfsskilyrði. Nýjar tölur sem fengnar eru beint frá fyrirtækjunum sýna þó að mörg fyrirtæki eru að taka góðan kipp og vaxa hratt, sérstaklega eftir að fjármálakreppan skall á, enda margt sem hefur lagast í starfsskilyrðum þessara fyrirtækja í kreppunni. Forsvarsmenn fyrirtækjanna sæju fyrir sér bjarta framtíð ef starfsskilyrðin yrðu viðundandi.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, kynnti ný lagafrumvörp um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki sem lögð hafa verið fram á Alþingi. Þinggestir lýstu velþóknun sinni á frumvörpunum með löngu lófataki að lokinni framsögu ráðherra, enda ljóst að um er að ræða eitt markverðasta framlag stjórnvalda til málaflokksins sem fram hefur komið í seinni tíð. Endurgreiðsla rannsókna- og þróunarkostnaðar og skattalegir hvatar til að örva fjárfestingar í hátækni- og sprotafyrirtækjum sem lagafrumvörpin fela í sér hefur margoft verið raðað efst á forgangslista stefnumótunarhópa í hátækniiðnaði. Lagafrumvörpin voru síðan til umfjöllunar í einni af þingnefndum þingsins síðar á dagskránni.
Framtíðarsýn og áhersluverkefni helstu starfsgreina í hátækniiðnaði
Að framsöguerindum loknum kynntu fulltrúar sex hátæknigreina framtíðarsýn og áherslur í sinni grein. Samtök iðnaðarins hafa ásamt forsvarsmönnum fyrirtækja í hátæknigreinum og aðilum úr stoðkerfinu staðið fyrir umfangsmiklu stefnumótunarstarfi á undanförnum árum, þar sem framtíðarsýn og forsendur uppbyggingar í ólíkum starfsgreinum eru skilgreindar og verkefnum sem taka mið af þeirri uppbyggingu forgangsraðað. Eftirfarandi fulltrúar og starfsgreinar voru kynntar:
1. Framtíðarsýn í orku- og umhverfistækni – Gunnlaugur Hjartarson, Iceconsult ehf.
2. Framtíðarsýn í vél- og rafeindatækni fyrir sjávarútveg og matvælavinnslu – Ásgeir Ásgeirsson, Marel hf.
3. Framtíðarsýn í líftækni – Sigríður Valgeirsdóttir, Roche Nimblegen
4. Framtíðarsýn í heilbrigðistækni – Baldur Þorgilsson, Kine ehf.
5. Framtíðarsýn í leikjaiðnaði – Jónas Antonsson, Gogogic ehf.
6. Framtíðarsýn í upplýsingatækni – Þórólfur Árnason, Skýrr hf.
Í framangreindum framsöguerindum var að varpað ljósi á framtíð hátækni- og sprotafyrirtækja á Íslandi og kynntar áherslur í starfsskilyrðum þessara fyrirtækja sem þurfa að vera fyrir hendi til að sú framtíð geti orðið að veruleika. Niðurstöður þessarar kynningar má draga saman í eina mynd sem sýnir helstu fyrirsagnir í framtíðarsýn einstakra greina og hvernig draga má þessar fyrirsagnir í eina heildarmynd. Sjá mynd.
Þingnefndarfundir
Meginkjarni þingsins voru þingnefndirnar. Í þingnefndum eru lagðar fram og ræddar tillögur um að bæta starfsskilyrði hátækni- og sprotafyrirtækja sem eiga erindi við stjórnvöld og þingmenn Alþingis. Þátttakendur völdu sér þingnefnd eftir áhuga og starfssviði en þó var leitast við að skapa jafnvægi milli fulltrúa fyrirtækja, stuðningsaðila og þingmanna í hverri nefnd. Fjöldi þátttakenda í þinginu takmarkaðist við 150 manns en í hverri nefnd voru 10-25 þátttakendur auk umræðustjóra, málshefjanda og ritara. Þingnefndartillögur sem höfðu verið unnar í aðdraganda þingsins af undirbúningshópum, voru kynntar af málshefjanda sem var í flestum tilfellum fulltrúi fyrirtækis sem með góða þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Þingnefndir voru tvenns konar – annars vegar starfsgreinatengdar og hins vegar málefnatengdar á neðangreindum sviðum og voru eftirfarandi tillögur fluttar af fulltrúum fyrirtækja:
1) Orku- og umhverfistækni – Edda Lilja Sveinsdóttir, Orkuveitu Reykjavíkur
- Skýra langtímastefnu stjórnvalda í orku- og umhverfismálum
- Aukin samvinna um þróun, menntun, þjálfun, auðlindagarða og klasa
- Hvatar til bættrar orkunýtingar og framleiðslu nýrra orkugjafa
- Minni notkun jarðefnaeldsneytis og aukin notkun innlendra orkugjafa
- Markvisst markaðs- og kynningarstarf
2) Vél- og rafeindatækni fyrir sjávarútveg og matvælavinnslu – Kristinn Andersen, Marel hf.
- Menntun og rannsóknir í takti við þarfir atvinnulífs hverju sinni
- Þekkingarsetur um tækni fyrir íslenskt atvinnulíf
3) Líftækni – Sigríður Valgeirsdóttir, Roche Nimblegen
- Aðhaldssamt, hagstætt og styðjandi lagaumhverfi í þágu nýsköpunar
- Efla stuðning og þjálfun við öflun einkaleyfa og hugverkavernd
- Efla samkeppnissjóði og skattalega hvata sem laða þolinmótt fjármagn að langtímafjárfestingum
4) Heilbrigðistækni – Sveinbjörn Höskuldsson, Nox Medical ehf.
- Tryggja samstarf heilbrigðisstofna og fyrirtækja um þróun og prófun lausna, bæði til lengri og skemmri tíma
- Skýra aðgengi og reglur heilbrigðistæknifyrirtækja að gögnum til þróunar heilbrigðistæknilausna
- Tryggja heimamarkað fyrir heilbrigðistæknifyrirtæki
5) Upplýsingatækni – Þórólfur Árnason, Skýrr hf.
- Auka rafræna opinbera þjónustu og innleiða rafræna reikninga hjá hinu opinbera
- Aukin útvistun og meiri nýting opinberra aðila á upplýsingatækni – skilgreindur framkvæmdaaðili til að framfylgja stefunni um upplýsingasamfélagið
- Þróunarsetur háskóla, stjórnvalda og fyrirtækja í upplýsingatækni
6) Leikjaiðnaður – Jónas Antonsson, Gogogic ehf.
- Sérhæfður fjárfestingasjóður í leikjaiðnaði
- Opinber stuðningur í leikjagerð – svipað og í kvikmyndagerð
- Samstarf háskóla og sprotafyrirtækja – sprotastuðningur
7) Endurgreiðsla R&Þ kostnaðar og skattalegir hvatar fyrir fjárfesta – Hilmar Pétursson, CCP hf.
- Lágmarks viðmiðunarmörk fyrir fyrirtæki sem geta fengið endurgreiðslu R&Þ kostnaðar verði 5 m.kr. í stað 20 m.kr. (sbr. 5. greina frumvarpsins)
- Hlutfall endurgreiðslu af kostnaði rannsókna- og þróunarverkefna verði 20% í stað 15%. (sbr. 8. gr. Frumvarpsins)
- Heimild til frádráttar vegna hlutabréfakaupa í nýsköpunarfyrirtækjum verði a.m.k 1 milljón fyrir einstaklinga (2 fyrir hjón) og 1,5 milljón kr. viðbótarheimild fyrir starfsmenn nýsköpunarfyrirtækja
- Heimildin gildi líka fyrir fjárfestingar í sjóðum sem sérhæfa sig í fjárfestingum í nýsköpunarfyrirtækjum.
8) Uppbygging sprotafyrirtækja - stuðningsumhverfið – Þórður Magnússon, Eyrir Invest ehf.
- Endurskipuleggja og straumlínulaga opinbert stoðkerfi
- Bæta fjármögnunarumhverfið – tryggja fjármagn í nýsköpun
- Efla menntun, rannsóknir og upplýsingar um hátækni- og sprotafyrirtæki
9) Efling Tækniþróunarsjóðs – fjármögnun, verkefnamat og ferli – Svana H. Björnsdóttir, Stiki ehf.
- Þrefalda framlög á fjárlögum til Tækniþróunarsjóðs strax á árinu 2010
- Efla Brúarstyrki til markaðssóknar á erlenda markaði – líka fyrir fyrirtæki með yfir 100 m.kr. veltu
- Fjölga fulltrúum hátækni- og sprotafyrirtækja í stjórn sjóðsins um tvo – efla matsferlið
10) Nýsköpun í tengslum við opinber innkaup – PPP aðferðafræði – Sigmar Guðbjörnsson, Stjörnu-Oddi hf.
- Stjórnvöld marki sér stefnu á sviði nýsköpunar í tengslum við opinber innkaup – hátæknistefnu og áherslusvið
- Skilgreina nýsköpunarferli ríkis og sveitarfélaga – bæta regluverk, ferli og aðkomu fyrirtækja að verkefnum sem tengjast þörfum stofnana ríkis og sveitarfélaga
- Samhæft nýsköpunarferli og tengslanet sem tengir notendur og þróunaraðila – eftirspurn og framboð
11) Stuðningur við útflutningsstarfsemi – ímynd Íslands – Vilborg Einarsdóttir, Mentor ehf.
- Auka þarf styrki til markaðssetningar erlendis
- Efla og straumlínulaga stuðning og leiðsögn við fyrirtæki sem sækja á erlenda markaði
- Auka þarf aðstoð utanríkisþjónustunnar við sprotafyrirtæki
- Byggja þarf upp ímynd Íslands á grunni þekkingar, nýsköpunar og hreinnar orku
Tillögurnar voru ræddar í þingnefndunum þar sem þátttakendur lýstu sínum viðhorfum og komu með ábendingar, breytingartillögur og viðbætur eftir því sem þeim þótti þörf á. Haldið var utan um alla umræðuna af umræðustjóra og ritarar tóku fundargerðir. Málshefjendur kynntu síðan niðurstöður umræðna í þingnefndum í þinglok, en Helgi Magnússon formaður SI sleit þinginu með nokkrum lokaorðum, þar sem hann lagði áherslu á samstöðu atvinnulífsins í þeirri endurreisn sem framundan er.
Góður hugmyndasjóður
Við blasir þörf á gagngerri endurnýjun og endurreisn íslensks atvinnulífs eftir hrun fjármálakerfisins í október 2008. Þar ætla hátækni- og sprotafyrirtæki að leggjast fast á árar og í þeim anda var þinginu valin yfirskriftin Framlag hátækni- og sprotafyrirtækja til endurreisnar.
Á Hátækni- og sprotaþingi 2009 var fjallað um framtíðarsýn og starfsskilyrði hátækni- og sprotafyrirtækja á Íslandi og framlag þeirra til endurreisnarinnar. Þetta er í þriðja sinn sem svona þing er haldið frá árinu 2005 og má segja að með þinginu núna hafi skapast sú hefð að halda Hátækni- og sprotaþing annað hvert ár. Niðurstöður þinganna 2005 og 2007 má nálgast á eftirfarandi tenglum.
http://www.si.is/starfsgreinahopar/sprotafyrirtaeki/frettir-og-greinar/nr/1848
http://www.si.is/starfsgreinahopar/sprotafyrirtaeki/frettir-og-greinar/nr/2820)
Hrunið á fjármálamarkaðnum í lok árs 2008 breytti mörgum forsendum í starfsskilyrðum fyrirtækjanna. Í fyrsta lagi hefur átt sér stað leiðrétting á gengi íslensku krónunnar sem styrkir samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem stunda útflutning – en á sama tíma hefur kostnaður við fjármögnun og markaðsstarf erlendis stóraukist. Ofan á þennan aukna markaðskostnað bætist að tæknifyrirtækin þurfa að yfirvinna laskaða ímynd íslensks fjármálalífs og aukna tortryggni í garð íslenskra fyrirtækja. Í öðru lagi hefur aðgangur að hæfu starfsfólki batnað mikið frá þeim tíma að tæknifyrirtækin voru í harðri samkeppni við fjármálafyrirtækin um hæfasta fólk. „Starfsorka“ er þríhliða samningur milli Vinnumálastofnunar, fyrirtækis og atvinnuleitanda um ráðningu í störf sem lúta að nýsköpun og þróun og greiðslu atvinnuleysisbóta. Í samningunum samþykkir atvinnuleitandinn að Vinnumálastofnun greiði grunnatvinnuleysisbætur hans ásamt 8% mótframlagi í lífeyrissjóð beint til fyrirtækisins. Þessu fyrirkomulagi var komið á í framhaldi „NÚNA – fundarins“ í nóvember 2008. Í þriðja lagi hyllir nú í fyrsta sinn undir að fjármagn til nýsköpunar og uppbyggingar þessara fyrirtækja fari vaxandi. Þar eru efling Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og tilkoma Frumtaks lóð á vogarskálarnar en nýframlögð frumvörp um endurgreiðslu hluta rannsókna- og þróunarkostnaðar og skattalega hvata fyrir fjárfesta er eitt markverðasta framlag málaflokksins sem fram hefur komið í seinni tíð. Hins vegar vekja takmörkuð framlög til Tækniþróunarsjóðs í fjárlagafrumvarpi 2010 enn mikil vonbrigði og eru úr takti við aukinn þunga umsókna til sjóðsins. Sýnt hefur verið fram á að hvert 100 m.kr. viðbótarframlag til sjóðsins, skilar 30 ársverkum í verðmætum störfum við nýsköpun afurða og ferla sem margfalda sig á skömmum tíma. Þessar sömu 100 milljónir duga fyrir atvinnuleysisbótum 27 manns í eitt ár – fyrir að sitja heima og gera ekki neitt.
– næstu skref
Þingnefndartillögurnar ásamt þeim umræðum sem fram fóru í þingnefndunum eru góður hugmyndasjóður fyrir alþingsmenn, stjórnvöld og stuðningsumhverfi um umbætur í starfsskilyrðum hátækni- og sprotafyrirtækja sem vega þungt í endurreisn og uppbyggingu íslensks atvinnulífs. Áfram verður unnið úr fundargerðum og gögnum Hátækni- og sprotaþings og mótaðar tillögur í framhaldi þingsins og fylgt eftir m.a. á Hátækni- og sprotavettvangi. Ef vel er að verki staðið getur sú uppbygging, sem þarna er lýst, orðið ein meginstoð hagvaxtar á Íslandi á komandi árum og jafnframt orðið sú leið sem best getur tryggt lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestum háa ávöxtun eigna sinna í framtíðinni. Grunnur að þessari uppbyggingu felst í að á Íslandi dafni fjölbreytt flóra arðvænlegra hátækni- og sprotafyrirtækja í starfsumhverfi í fremstu röð!.