Fréttasafn  • Málþing um kröfur til skólamáltíða

26. nóv. 2010

Hollur matur í skólum er fjárfesting til framtíðar

Samtök iðnaðarins stóðu fyrir málþingi um kröfur til skólamáltíða síðastliðinn þriðjudag. Metaðsókn var að málþinginu, um 150 manns, einkum skólastjórnendur, stjórnendur mötuneyta, matvælaframleiðendur, foreldrar og fulltrúar sveitarfélaga sóttu það. Tilefni þingsins var meðal annars að greina frá niðurstöðum norræns verkefnis sem samtökin hafa unnið að undanfarin tvö ár í samstarfi við Rannsóknarþjónustuna Sýni og Matís og hliðstæða aðila á hinum Norðurlöndunum með styrk frá Norrænu nýsköpunarmiðstöðinni, NICe.

Norrænt verkefni um skólamáltíðir

Markmið verkefnisins er að auka framboð hollra og girnilegra máltíða handa skólabörnum þar sem tekið er tillit til ólíkra sjónarmiða. Í verkefninu var lagt mat á stöðu varðandi skólamáltíðir á Norðurlöndunum, vandamál greind og gerðar tillögur til úrbóta. Hér á Íslandi voru heimsótt fyrirtæki sem framleiða skólamáltíðir og skólaeldhús og  haldnir umræðufundir þar sem komu saman fulltrúar sveitarfélaga, lýðheilsuyfirvalda, mötuneyta, framleiðslueldhúsa, rannsóknafólks og fræðsluaðila til að ræða um viðhorf til skólamáltíða, þörf á fræðslu og nýsköpun og þróun. Einnig var haldinn fundur þar sem sérstaklega var fjallað um útboð á matvælum fyrir skólamötuneyti. Í öllum löndum voru haldin málþing og sums staðar gerðar netkannanir.  Niðurstöður verkefnisins byggja á þessu starfi sem  verða gerð ítarleg skil í lokaskýrslu sem nú er í smíðum.

Skólamáltíðir hafa tíðkast mjög lengi í Finnlandi og Svíþjóð, eða frá því um miðja síðustu öld. Þar eru skólamáltíðir greiddar af opinberu fé. Hér á Íslandi var sett í grunnskólalög árið 1995 að nemendur skuli eiga kost á málsverði á skólatíma en í grunnskólalögum frá 2008 er lögunum breytt á þann veg að nemendur eigi kost á málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið. Foreldrar greiða fyrir máltíðir en flest sveitarfélög niðurgreiða að hluta. Í Danmörku og Noregi eru engin lög um skólamáltíðir og algengast að börn hafi með sér nesti í skólann.

Lýðheilsustöð, og systurstofnanir í Finnlandi og Svíþjóð, gefa út ítarlegar leiðbeiningar um skólamáltíðir til að auðvelda starfsfólki mötuneyta í skólum að bjóða upp á hollan og góðan mat við hæfi barnanna. Leiðbeiningarnar fjalla um hollustu og samsetningu fæðunnar, matseðlagerð, matreiðslu, sérfæði, hreinlæti og innkaup. Meirihluti skólamötuneyta leggur sig fram um að fara eftir leiðbeiningunum en margir telja sig vanta meiri þekkingu til að geta farið eftir þeim. Svíar hafa kannað þekkingu skólastjórnenda og matreiðslufólks á leiðbeiningum um skólamáltíðir og komist að því að víða skortir þekkingu til að innleiða þær. Vænta má að svipað sé uppi á teningnum hér á landi. Ráðgjöf fræðslustofnana á borð við Rannsóknarþjónustuna Sýni og Matís getur brúað bilið milli ráðlegginganna og mötuneyta í skólum.

Samstarf mikilvægt

Skólamáltíðir hafa sætt töluverðri gagnrýni, sérstaklega af hálfu foreldra. Oft er gagnrýnin byggð á misskilningi og ónógum samskiptum. Skoðanir á því hvað fólk telur hollt eru skiptar og oft einstrengingslegar. Það er mjög mikilvægt að maturinn í heild sé næringarríkur og fjölbreyttur en það eitt og sér dugir ekki til að börnin borði, hann verður líka að vera bragðgóður og aðlaðandi fram borinn. Margar rannsóknir sýna að vingjarnlegt viðmót og hvatning frá starfsfólki hefur ekki síður áhrif á að börnin borði matinn. Þá hefur ró og notalegt umhverfi í borðsal mikið að segja. Skólastjórnendur bera ábyrgð á mötuneyti skólans líkt og öðru skólastarfi og geta haft mikil áhrif á ímynd skólamáltíðanna. Gott samstarf milli skólastjórnenda, starfsfólks mötuneytis, kennara, foreldra og nemenda skiptir miklu máli til að koma jákvæðum breytingum til leiðar. Þá getur samstarf matreiðslumanna, matvæla- og næringarfræðinga, matvælaiðnaðar og innkaupaaðila leitt til þróunar á  hentugum, hollum réttum fyrir skólabörn. Í slíku samstarfi þarf sjónarmið nemenda og foreldra líka að komast til skila.

Á málþinginu töluðu fulltrúar sveitarfélaga um matarinnkaup fyrir skóla, fulltrúi Lýðheilsustöðvar um leiðbeiningar til skólamötuneyta og fulltrúi Heimilis og skóla um sjónarmið foreldra. Mikil samhljómur var í öllum erindum sem kom einnig heim við niðurstöður norræna verkefnisins en áhersla var lögð á eftirtalda þætti.

1.    Fjölþætt samstarf tryggir bestu þekkingu við framkvæmd skólamáltíða og bætt samskipti eyða tortryggni

2.    Fjölbreytni matseðla og jákvætt viðmót starfsfólks hvetur börnin til að borða hollan mat

3.    Sameiginlegar máltíðir kennara og nemenda gefa tækifæri til að bæta aga, draga úr hávaða í matsal og nemendur fá leiðsögn um hollar matarvenjur og matarmenningu.

4.    Meginmarkmiðið er að börnin borði af ánægju fjölbreyttan og næringarríkan mat í skólanum

Glærur fyrirlesara:

Kröfur til skólamáltíða - Hólmfríður Þorgeirsdóttir, Lýðheilsustöð

Reynsla af skólamáltíðum á Norðurlöndum, Ragnheiður Héðinsdóttir, Samtök iðnaðarins

Innkaupastefna Reykjavíkur og tilraunverkefni um hverfainnkaup - Ingibjörg H. Halldórsdóttir, Reykjavíkurborg

Útboð skólamáltíða og þjónustusamningar, kröfur til gæða og eftirfylgni - Guðmundur Ragnar Ólafsson, Hafnarfjarðarbær

Sjónarmið foreldra, Bryndís Haraldsdóttir, Heimili og skóli