Fréttasafn



  • Lög

4. jan. 2011

Samantekt yfir nýsamþykkt lög og breytingar á lögum er Samtök iðnaðarins hafa látið sig varða

Nú rétt fyrir jól voru eftirfarandi lög og breytingar á lögum samþykkt á Alþingi:

1. Lög um breytingu á raforkulögum

Með þessum breytingum á lögunum er verið að fresta gildistöku ákvæðis um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi orkufyrirtækja um eitt ár. Er þetta í þriðja sinn sem gildistökunni er frestað. 
Umsögn SI

2. Lög um breytingu á vöxtum og verðtryggingu (uppgjör gengistryggðra lána o.fl.)

Lögunum er ætlað að leysa álitaefni tengd uppgjöri gengistryggðra lána einstaklinga en um það var deilt hvaða uppgjörsaðferðir ætti að leggja til grundvallar og hvort það skyldi gert með lagasetningu, samkomulagi stjórnvalda við lánafyrirtæki eða með málaferlum fyrir dómstólunum. 
Umsögn SI

3. Lög um breytingar á vörugjöldum af ökutækjum, eldsneyti o.fl. (skattlagning skv. útblæstri bifreiða)

Um er að ræða kerfisbreytingu í skattlagningu ökutækja og eldsneytis að því er varðar viðmið skattlagningar með það að leiðarljós að hvetja til notkunar vistvænna ökutækja, orkusparnaðar, minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda og aukinnar notkunar innlendra orkugjafa. 
Umsögn SI

4. Lög um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld

Í fyrsta lagi eru breytingar á lögum um tekjuskatt og lögum um tekjustofna sveitarfélaga í tengslum við yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Í öðru lagi eru breytingar sem snúa að rýmkun á skattalegum úrræðum fyrir fyrirtæki, annars vegar vegna skattalegrar meðferðar á eftirgjöf skulda og hins vegar vegna heimildar til greiðsluuppgjörs á gjaldföllnum skattaskuldum frá fyrri árum. Í þriðja lagi eru breytingar á lögum um nýsköpunarfyrirtæki til frekari eflingar þeirri starfsemi, auk niðurfellingar hlutabréfaafsláttar. Í fjórða lagi er framlengt bráðabirgðaákvæði um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sem felur í sér að vikmörk milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga lífeyrissjóða verði áfram 15% í stað 10% út árið 2010. Í fimmta lagi eru breytingar á heimildum skattrannsóknarstjóra til að einfalda og hraða málsmeðferð gagnvart aðilum sem eru til rannsóknar. Að lokum er að finna nokkrar breytingar sem eru tilkomnar vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), tilkomu umhverfisvænna orkugjafa og framlengingar á niðurfellingu stimpilgjalds vegna skilmálabreytinga lána hjá fólki í greiðsluerfiðleikum. 
Umsögn SI 

5. Lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum

Með lögunum er verið að gera breytingar á gildandi lögum til samræmis við forsendur í fjárlagafrumvarpi 2011.
Umsögn SI

6. Lög um breytingar á virðisaukaskatti (rafræn þjónusta, bætt skil og eftirlit o.fl.

Breytingarnar felast í fyrsta lagi í því að skilgreint er hvað telst vera útflutningur á rafrænt afhentri þjónustu og teljist þar með ekki til skattskyldrar veltu. Í öðru lagi er að finna ákvæði er hafa það markmið að bæta skil og eftirlit með greiðslu virðisaukaskatts. Í þriðja lagi eru gerðar nokkrar breytingar á fjárhæðarmörkum og skilgreiningum og í fjórða lagi er felld niður heimild til endurgreiðsla virðisaukaskatts af sölu á heitu vatni og rafmagni til hitunar húsa og laugarvatns. Þá er loks framlengd til ársloka 2011 heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða annars vegar og til byggjenda og eigenda húsnæðis hins vegar. 
Umsögn SI

7. Lög um breytingu á lögum um úrvinnslugjald (hækkun gjalda)

Úrvinnslugjald á nokkra vöruflokkar hækkar.  
Umsögn SI 

8. lög um mannvirki

Markmið nýju laganna er að auka öryggi og gæði mannvirkja, efla neytendavernd, gera stjórnsýslu mannvirkjamála sem skilvirkasta, auka faglega yfirsýn í málaflokknum og tryggja samræmt byggingareftirlit um land allt.  Lögin fela m.a. í sér að ný stofnun, Mannvirkjastofnun, tók til starfa 1. janúar 2011.  Jafnframt verður Brunamálastofnun lögð niður og ábyrgð á framkvæmd byggingamála færð frá Skipulagsstofnun til Mannvirkjastofnunar.

Umsögn SI