Fréttasafn  • Orka

8. mar. 2012

Afmælisráðstefna VFÍ - Framtíðarnýting orkuauðlinda á Íslandi

Afmælisráðstefna Verkfræðingafélags Íslands, VFÍ var haldin á Grand Hótel í dag. Yfirskrift hennar var Framtíðarnýting orkuauðlinda á Íslandi. Orri Hauksson, framkvæmdastjóri SI var meðal frummælenda en hann fjallaði um sýn iðnaðarins á orkunýtingu framtíðarinnar.
 
Orri sagði m.a. Ísland eiga góða möguleika á að verða uppspretta lausna og afurða, sem tengjast jarðvarma og ýmsum öðrum sviðum umhverfis, orku og stóriðju og nefndi sem dæmi reynslu Íslendinga af jarðvarma við jarðlagagreiningu á Drekasvæðinu. „Hvort sem upp kemur dropi af nýtilegri olíu á þessu svæði eða ekki, eigum við að nýta styrkleika okkar og þekkingu á sjó og landi, til að þjónusta kafbátaleit, hljóðbylgjurannsóknir og aðra tæknilega flókna viðleitni á svæðinu. Fjölnýting, ferðaþjónusta, hreint eldsneyti og aðrar aukabúgreinar jarðvarmans er einnig svið sem við munum beina sjónum okkar að í auknum mæli. Þau umskipti, að við högnumst fyrst og fremst á hliðargreinum orkuiðnaðar, verða hins vegar ekki á morgun. Við getum ekki látið af frekari orkuframkvæmdum í dag og beðið með hendur í skauti, eftir að lifa á visku okkar einni saman“ sagði Orri. Þvert á móti þurfi að setja markið hátt til langs tíma, í stöðugri uppfærslu orkumannvirkja og í að nýta sífellt betur okkar innlendu möguleika. Þannig getum við ræktað þekkingariðnað okkar og nýsköpun, sem síðan hægt er að búa til verðmæti úr fyrir aðra markaði.

 

Erindi Orra

Dagskrá ráðstefnunnar