Fréttasafn  • horft

25. maí 2012

Nýsköpun er ekki spretthlaup í blíðviðri

„Nýsköpun er ekki spretthlaup í blíðviðri, heldur líkist fremur víðavangshlaupi í íslenskri veðráttu,“ sagði Orri Hauksson, stjórnarformaður Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins (NSA). á ársfundi sjóðsins sem haldinn var á Grand Hóteli í gær. Sjóðurinn var rekinn með 315 milljóna króna tapi árið 2011 en að sögn Helgu Valfells, framkvæmdastjóra sjóðsins, er aðalástæða þessa taps sala á eignarhlutum í fyrirtækjum og varúðarafskriftir. Hún benti þó á að snemma árs 2012 var eignarhlutur sjóðsins í Marorku seldur með góðum hagnaði. Fjárfestu fyrir 670 milljónir Samkvæmt efnahagsreikningi voru heildareignir sjóðsins 4,8 milljarðar króna í árslok, þar af var eignarhlutur í fyrirtækjum metinn á 2,7 milljarða. Eign sjóðsins í samlagssjóðunum Frumtaki, Auði 1 og Brú var metin á 1,2 milljarða. Alls samþykkti stjórn sjóðsins fjárfestingu sem nam 670 milljónum á árinu 2011. Samþykkt var að kaupa hlutafé í sex nýjum fyrirtækjum á árinu: Cooori, Skelfélaginu, Mint Solutions, Tölvuskýi (Greenqloud), Icemedix og 3z. Jafnframt var stutt við vöxt níu fyrirtækja sem þegar voru í eignasafni sjóðsins. Við árslok 2011 átti NSA því í 37 fyrirtækjum, af þeim voru 25 fyrirtæki komin með veltu og var samanlögð velta þeirra rúmir fimm milljarðar króna. Hjá þessum fyrirtækjum störfuðu um 550 manns.

Skjöl frá fundinum:

Horft út í heim

Ræða Kristjáns Skarphéðinssonar í fjarveru iðnaðarráðherra

Orri Hauksson - Ávarp á aðalfundi NSA á Grand Hótel