Fréttasafn  • Tækni- og hugverkaþing 2013

18. feb. 2013

Samstaða um skattalega hvata á Tækni- og hugverkaþingi

Tækni- og hugverkaþing 2013 fór fram í Salnum, Kópavogi sl. föstudag. Á fundinum kynntu sex stjórnmálaflokkar tillögur sínar að umbótum á starfsumhverfi tækni- og hugverkafyrirtækjum. Samstaða er um skattalega hvata til að efla vöxt lítilla og meðalstórra fyrirtækja og aðgerðaáætlun um eflingu verk- og tæknináms.

FORSENDUR ÁRANGURS í tækni- og hugverkaiðnaði

Á þinginu var fjallað um framtíðarsýn í tækni- og hugverkagreinum hjá þeim stjórnmálaflokkum sem eru í framboði til Alþingiskosninga 2013 og áherslur þeirra til að ná árangri í verðmætasköpun og uppbyggingu atvinnulífs sem byggir á þekkingarauðlindum. Horft var til stöðu og starfsskilyrða tækni- og hugverkafyrirtækja á Íslandi og hvernig stjórnvöld, stoðkerfi og atvinnulíf geta unnið saman að því að koma umbótum í framkvæmd með aukinn árangur að leiðarljósi. 

Í aðdraganda Tækni- og hugverkaþings 2011 var unnið nýtt stefnumótunarstarf og skilgreind áhersluverkefni til ársins 2016. Niðurstaðan var gefin út í bæklingi fyrir þingið í ár og kynnt með myndbandsinnslagi í alþjóðlegum fréttastíl. Þá voru sýnd myndbönd með viðtölum við formenn starfsgreinahópa og stjórnmálaflokka í byrjun þingsins. Þar kom fram sterk samstaða um að Ísland geti orðið aðlaðandi starfsvettvangur fólks og fyrirtækja í nýsköpun ef nokkrar lykilforsendur í starfsskilyrðum greinarinnar væru til staðar.

Sjá bækling - Framtíðarsýn tækni- og hugverkagreina til ársins 2016

Hér má skoða myndbönd sem sýnd voru á þinginu:

Framtíðarsýn tækni- og hugverkagreina 2016

Framtíðarsýn formanna starfsgreinahópa 2016

Framtíðarsýn formanna stjórnmálaflokka 2016

Svana Helen Björnsdóttir, formaður SI setti þingið og lagði áherslu á mikilvægi samstarfs allra flokka, starfsgreina og  stuðningsaðila til að efla vöxt og viðgang atvinnulífs á Íslandi.  Það væri ekki óraunhæfur draumur að koma Íslandi í fremstu röð þjóða í samkeppnishæfni.

Haukur Alfreðsson, verkefnisstjóri Hátækni- og sprotavettvangs fór yfir starfsemi vettvangsins og stöðu helstu áhersluverkefna.  Í hans máli kom fram að þó sterk samstaða sé um áhersluverkefni og lykil forsendur fyrir framþróun greinarinnar, tekur oft langan tíma að koma nauðsynlegum breytingum í gegnum vinnuferlið hjá stjórnvöldum og stjórnsýslu.

Góðar tillögur frá öllum frambjóðendum

Meginkjarni þingsins voru tillögur stjórnmálaflokka. Hver flokkur í framboði til Alþingis átti þess kost að senda fulltrúa með tillögur til umbóta í formi þingsályktuna, lagafrumvarpa, reglugerðabreytinga eða fjárlagatillagna sem miða að því að bæta starfsskilyrði tækni- og hugverkagreina á Íslandi.  Fulltrúar sex flokka komu vel undirbúnir til þingsins og kynntu 1-3 tillögur hver. Hægt er kynna sér tillögurnar  HÉR

Að loknum framsöguerindum gáfu þátttakendur hverri tillögu einkunn á skalanum 0 - 5 á þar til gerð eyðublöð, sem safnað var saman og unnið úr meðan þinggestir nutu kaffiveitinga og mannblendis.

Mjótt var á munum milli þeirra tillagna sem hæsta einkunn hlutu en svo fór að tillögur Samfylkingar röðuðu sér í þrjú efstu sætin, Framsóknarflokkurinn í næstu þrjú og tillaga Bjartrar framtíðar í það sjöunda.

 1 Skattalegir hvatar til að örva vöxt lítilla og meðalstórra fyrirtækja Samfylkingin 3,95
 2 Aðgerðaáætlun um eflingu verk- og tæknináms Samfylkingin 3,75
 3 Átak til eflingar fjárfestinga í tækni- og hugverkafyrirtækjum Samfylkingin 3,69
 4 Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki Framsóknarflokkurinn 3,66
 5 Lífeyrissjóðir megi kaupa í félögum á First North markaði Framsóknarflokkurinn 3,61
 6 Fjármögnun nýsköpunarverkefna á netinu Framsóknarflokkurinn 3,51
 7 Uppbygging tækni- og hugverkaiðnaðar – 10 punkta plan Björt framtíð 3,15
 8 Um breytingu á lögum nr. 152/2009 um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki Vinstri græn 3,11
 9 Að fela fjármála- og efnahagsráðherra að setja fram tímasetta, raunhæfa áætlun um endurskoðun á skattaumhverfi fyrirtækja með það að markmiði að einfalda skattkerfið og auka skilvirkni þess Sjálfstæðisflokkurinn 2,90
10 Að fela mennta- og menningarmálaráðherra í samvinnu við aðra ráðherra að færa fjármagn frá föstum framlögum málaflokka og stofnana til samkeppnissjóða Sjálfstæðisflokkurinn 2,82
11  Að fela mennta- og menningarmálaráðherra að setja fram tímasetta, raunhæfa mennta- og nýsköpunarstefnu Sjálfstæðisflokkurinn 2,66
12  Um aðgerðir til þess að draga úr brennslu jarðefnaeldsneytis Vinstri græn 2,59
13  Um stuðning við rannsóknir og þróun í landbúnaði Vinstri græn 2,46
14  Flatur skattur og einfalt skattaumhverfi – Ísland í fremstu röð í skattalegri samkeppni Hægri græn 2,20
15  Spjaldtölvur, þráðlaus nettenging, grænt tölvuský, rafræn þjónusta og nýting upplýsingatækni – Ísland í fremstu röð í tækni og hugverkaumhverfi Hægri græn 1,67

Sófaumræða

Að lokinni atkvæðagreiðslu var efnt til sófaumræðu með þátttöku fulltrúa flokkanna undir stjórn fundarstjóra Davíðs Lúðvíkssonar hjá SI og Rakelar Sölvadóttur hjá Skema og stjórnarmanns í SSP. Þrátt fyrir samhljóm í tillögum hefur oft reynst erfitt að koma hlutum í framkvæmd hjá stjórnvöldum. Stjórnendur umræðu spurðu fulltrúa flokkanna hvers vegna góðir hlutir gerðust svona seint í stjórnsýslunni. Fjármálaráðherra Katrín Júlíusdóttir varð fyrst til að svara og sagði hluta af skýringunni í mörgum tilvikum liggja í að kynna þarf slík mál fyrir ESA og fá lagarfrumvörp samþykkt fyrirfram þar. Í máli þátttakenda mátti greina góðan vilja til þess að tryggja markvissari framkvæmd málefna sem almenn samstaða ríkir um.

Rakel Sölvadóttir benti á að þrátt fyrir fögur fyrirheit þá væru ákvarðanir á fjárlögum ekki alltaf í takt við umræðuna.   Það væri t.d. skammarlegt að samstarfsverkefni atvinnulífs og stjórnvalda um „betri þjónustu fyrir minna fé“ á vettvangi mennta-, heilbrigðis-, orku- og umhverfismála hefði verið flautað af í  fjárlagagerðinni fyrir 2013 -  til skaða fyrir fyrirtækin og þjóðfélagið allt.   Hún bað fulltrúa þeirra flokka sem væru sammála um halda verkefninu áfram að rísa á fætur.  Það gerðu þeir allir sem einn undir lófataki þátttakenda.  Sama gilti um áherslur til að efla fjárfestingu í fyrirtækjum – þar voru allir líka sammála.   Rakel bað alla þátttakendur á þinginu sem væru sammála um að auka fjárveitinu til upplýsingatækni í grunn- og framhaldsskólum að rísa úr sæti.  Nær allir risu úr sætum.

Í síðustu umferð umræðunnar svöruðu fulltrúar flokkanna spurningum úr sal um leið og umræðan barst að að því hvað þurfi að gera til að Ísland komist í hóp samkeppnishæfustu landa sem laði til sín fólk og fyrirtæki í nýsköpun. Í þeirri umræðu komu fram mismunandi sjónarmið hjá fulltrúum flokkanna – þar sem sumir veltu því m.a. fyrir sér hvort æskilegt sé að sækjast eftir því að vera „best í heimi“.  Vilji flestra stóð þó til að stefna inn í þá framtíð sem kynnt var á þinginu og töldu flestir að mikilvægustu forsendurnar væru;   að auka fjárfestingu í nýsköpun fyrirtækja m.a. með skattalegum hvötum og eflingu samkeppnissjóða, efling menntakerfinsins m.a. með hagnýtingu nýjustu tækni í kennslu, skilvirk stjórnsýsla og aukin framleiðni á öllum sviðum.  Í lok umræðunnar barst umræðan að mikilvægi efnahagslegs og pólitísks stöðugleika og hluti hópsina benti  á að ekki væri hægt að horfa framhjá mikilvægi traust gjaldmiðils og afnáms gjaldeyrishafta ef við viljum gera Ísland aðlaðandi fyrir fólk og fyrirtæki í nýsköpun.

Sjá upptöku af sófaumræðu

Að lokinni sófaumræðu sleit Orri Hauksson, framkvæmdastjóri SI þinginu með því að benda á að efni þingsins ætti erindi langt út fyrir raðir tækni- og hugverkafyrirtækja, enda væru slík fyrirtæki í nánu samstarfi við allt atvinnulíf í landinu og væru oft mikilvæg forsenda framfara í öðrum greinum. Hann lagði áherslu á markviss vinnubrögð og einurð í því að fylgja málum eftir og missa ekki viðfangsefnin út um víðan völl í athyglisbresti sem svo oft einkennir umræðuna á Íslandi. Hann sleit þinginu með þeim skemmtilegu orðum sem segja meira en löng ræða – „nei þarna er hundur“!

Næstu skref – seinni hluti þingsins á hausdögum

Þingið er það fimmta í röð sambærilegra þinga sem haldin hafa verið annað hvert ár frá árinu 2005. Fundurinn 15. febrúar var fyrri hluti þingsins í ár en seinni hluti fer fram á haustdögum í tengslum við umræður um fjárlagafrumvarp fyrir 2014. Þá verður horft til framkvæmdar og eftirfylgni áhersluverkefna sem flokkarnir kynntu í febrúar og skoðað hvort lesa megi þessar áherslur út úr fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2014.

Samtök iðnaðarins, Hátækni- og sprotavettvangur, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, stjórnmálaflokkar í framboði til Alþingis, auk ráðuneyta forsætis-, atvinnuvega- og nýsköpunar-, fjármála-, mennta, utanríkis- og velferðar, háskóla og annarra aðila stoðkerfis og atvinnulífs stóðu að þinginu en tilgangur þess er að skapa vettvang fyrir bein samskipti þeirra sem reka tækni- og hugverkafyrirtæki á Íslandi og þeirra sem hafa áhrif á starfsskilyrði  greinarinnar, ekki síst þeirra sem fara með löggjafarvaldið.