Fréttasafn



14. feb. 2014

Útboðþing 2014 - Birtir til á bygginga- og verktakamarkaði

Fullt var út úr dyrum á Útboðsþingi Samtaka iðnaðarins á Grand Hótel í dag. Fyrstur á mælendaskrá var Dagur B. Eggertsson sem kynnti fyrirhugaðar framkvæmdir Reykjavíkurborgar á komandi ári. Þrátt fyrir að nú sé kosningaár eru framkvæmdir ársins 10% minni en í fyrra eða 8,5 milljaðar króna. Dagur gaf einnig yfirlit yfir helstu verkefni einkaaðila vítt og breitt innan borgarmarkanna á næstu misserum og árum og ef þau áform ganga eftir verður líflegt á bygginga- og verktakamarkaði næstu árin.

Halldóra Vífilsdóttir kynnti framkvæmdir á vegum ríkisins. Vegna stefnu ríkistjórnarinnar um hallalaus fjárlög voru nokkur stærri fjárfestingaverkefni sett á ís. Framkvæmdir Velferðarráðuneytis eru rúmir 3 milljarðar en samtals eru áformuð verkefni fyrir 6,8 milljarðar á árinu.

Vignir Albertsson kynnti hefðbundnar framkvæmdir Faxaflóahafna en að auki kynnti hann áhugaverð áform bandaríska fyrirtækisins Silicor Materials um að reisa silíkonverksmiðju á Grundartanga. Verkefni upp á 70 milljarða króna. Að sögn Vignis er stutt í að endanlega ákvörðun verði tekin og þá munu framkvæmdir hefjast fljótlega.

Í kynningu Landsvirkjunar kom fram að orkusölusamningar við uppbyggingu á Bakka eru á lokametrunum og vonast er til að þeim ljúki fyrir næstu mánaðarmót. Að því gefnu að niðurstaðan verði jákvæð verður hafist handa við útboð á undirbúningsframkvæmdum á Þeistareykjum í sumar og byggingarframkvæmdir sumarið á eftir.

Hildigunnur H. Thorsteinsson sagði frá fyrirhuguðum framkvæmdum á vegum Orkuveitu Reykjavíkur sem hyggjast verja 4 milljörðum króna til fjárfestinga og er það heldur meira en í fyrra en OR hefur fylgt ströngu aðhaldsferli sem nú sér fyrir endann á.

Af kynningum á Útboðsþingi í dag má ráða að heldur sé að birta til á bygginga- og verktakamarkaði.

Hér má nálgast kynningarnar:

Reykjavíkurborg

Framkvæmdasýsla ríkisins

Faxaflóahafnir

Landsnet og fleiri

Landsvirkjun

Orkuveita Reykjavíkur

Vegagerðin