Fréttasafn22. sep. 2021 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Orka og umhverfi Samtök álframleiðenda á Íslandi

Nú er tækifærið að sækja fram í loftslagsmálum

Ísland er í kjörstöðu til að vera brautryðjandi í rannsóknum og þróun föngunar- og förgunartækni með sinn öfluga orkusækna iðnað. Nú þegar hafa myndast vísar að sprotafyrirtækjum á þessu sviði og öll álverin hér á landi hafa sýnt í verki vilja til að taka þátt í slíku samstarfi. Nú er tækifærið að sækja fram í loftslagsmálum. Þetta segir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, í grein sinni í ViðskiptaMogganum.

Í grein Péturs kemur fram að lítið hafi farið fyrir því í umræðu um kolefnisgjald af atvinnulífinu að þau fyrirtæki sem falli undir ETS, viðskiptakerfi ESB um losunarheimildir, greiði nú þegar ört hækkandi kolefnisgjald fyrir sína losun. Það eigi við um íslensku álverin og kísilverin, flugfélögin og orkufyrirtækin. Hann segir að ef litið sé á álverin sérstaklega hafi þau greitt milljarða fyrir losunarheimildir frá því ETS-kerfið var tekið upp og megi áætla að verðið hafi numið um 1,5 milljörðum bara fyrir árið 2020 eða um milljón á hvern starfsmann. Verðið hafi tvöfaldast síðan þá og megi því reikna með að gjöldin verði mun hærri á þessu ári.

Álfyrirtækin á Íslandi leiðandi í rannsóknum 

Pétur segir í greininni að tilgangurinn með ETS-kerfinu sé að skapa hvata fyrir fyrirtæki til að fjárfesta í tækniþróun og draga úr losun. Þá sé hugmyndin sú að tekjur stjórnvalda af kerfinu séu eyrnamerktar loftslagsvænum verkefnum í atvinnulífinu og sé sú raunin víðast hvar innan ESB. „Þau álfyrirtæki sem starfa á Íslandi eru nú þegar leiðandi í rannsóknum á þessu sviði. Alcoa og Rio Tinto vinna saman að þróun kolefnislausra skauta undir hatti Elysis, en að því koma einnig kanadísk stjórnvöld og tæknirisinn Apple. Lagt er upp með að hægt verði að innleiða tæknina í starfandi álver og gangi það eftir losnar súrefni en ekki koldíoxíð við framleiðslu áls.“

Losun álveranna dregist saman um 75% frá 1990

Þá segir Pétur að íslenska sprotafyrirtækið Arctus Metals hafi unnið að sambærilegri þróun í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð og Norðurál, en verkefnið sé m.a. styrkt af Alcoa Foundation. Nýverið hafi verið tilkynnt að það væri komið í samstarf við þýska álframleiðandann Trimet, þar sem unnið verði að því að skala framleiðsluna upp enn frekar. „Losun álframleiðslu er hvergi minni en á Íslandi. Þar munar mest um nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, enda er kolaorka helsta orsök losunar við álframleiðslu á heimsvísu. En íslensku álverin hafa einnig náð góðum árangri við að draga úr beinni losun við framleiðsluna, losun á hvert framleitt tonn hefur dregist saman um 75% frá árinu 1990 og örðugt er að ná lengra með núverandi framleiðslutækni.“

Margskonar  tækniþróun til skoðunar

Pétur segir jafnframt í greininni að ljóst sé þó að álverin haldi áfram að leita allra leiða til að draga frekar úr losun. Á meðal þess sem verið hafi til skoðunar hér á landi sé förgun og föngun koldíoxíðs. Álverin skrifuðu undir viljayfirlýsingu fyrir tveim árum með íslenskum stjórnvöldum og Orkuveitu Reykjavíkur um samstarf við að leiða gas í grjót, en til þess þurfi að þróa nýjar leiðir við föngun koldíoxíðs. Fleiri aðferðir við föngun og förgun séu til skoðunar, enda ljóst að margs konar tækniþróun þurfi að eiga sér stað. 

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

ViðskiptaMogginn, 22. september 2021.

VidskiptaMogginn-22-09-2021