Ný stjórn Félags löggiltra rafverktaka
Ný stjórn var kosin á aðalfundi Félags löggilta rafverktaka, FLR, sem haldinn var síðastliðinn föstudag með rafrænum hætti. Á fundinum var auk kosninga flutt skýrsla formanns, ársreikningar bornir upp til samþykktar og samþykktum félagsins breytt. Við kosninguna var notað kosningakerfi sem útfært hefur verið fyrir aðildarfélög Samtaka iðnaðarins.
Formaður í nýrri stjórn FLR er Pétur H. Halldórsson, Raftækjasalan, og meðstjórnendur eru Helgi Rafnsson, Rafholt, Elvar Trausti Guðmundsson, Rafgæði, Friðrik Fannar Sigfússon, Enorma, og Róbert Jensson, Rafmagnsverkstæði Jens og Róberts. Varamenn eru Sigurður Valur Pálsson, Fagraf, og Jóhann Unnar Sigurðsson, Elmax.
FLR sem stofnað var 1927 er fjölmennasta aðildarfélag Samtaka rafverktaka, SART, með 114 félagsmenn og á síðasta starfsári gengu 10 nýir félagsmenn til liðs við FLR en inngöngu í FLR geta fengið löggiltir rafverktakar og/eða fyrirtæki þeirra. Jafnframt geta gerst félagar fyrirtæki og deildir fyrirtækja sem hafa með höndum atvinnurekstur á rafmagnssviði og hafa löggilta rafverktaka í þjónustu sinni.
Á myndinni hér fyrir ofan má sjá Kristján Daníel Sigurbergsson, framkvæmdastjóra SART og viðskiptastjóra á mannvirkjasviði SI, (t.h.) og Svein Héðinsson, viðskiptastjóra á mannvirkjasviði SI, sem stýrðu fundinum og kosningunni frá skrifstofu Samtaka iðnaðarins í Borgartúni.
Góð mæting var á fundinn og var það skoðun fundarmanna að vel hefði tekist til með rafrænt fyrirkomulag á fundinum, góðar umræður urðu meðal fundarmanna og kosningakerfið sannaði ágæti sitt.

Pétur H. Halldórsson er formaður Félags löggiltra rafverktaka.