Fréttasafn



19. nóv. 2024 Almennar fréttir Mannvirki Samtök rafverktaka

Ný stjórn Félags löggiltra rafverktaka

Ný stjórn Félags löggiltra rafverktaka, FLR, sem er aðildarfélag Samtaka rafverktaka var kosin á aðalfundur félagsins sem fór fram fyrir nokkru í Húsi atvinnulífsins. Á fundinum voru helstu málefni félagsins til umfjöllunar, meðal annars skýrsla stjórnar, ársreikningar og kosningar til stjórnar og varastjórnar. Pétur H. Halldórsson, sem lokið hafði sínu kjörtímabili sem formaður, gaf kost á sér til áframhaldandi starfa og var einróma endurkjörinn til tveggja ára. Einnig voru kosnir tveir meðstjórnendur; Jóhann Unnar Sigurðsson hlaut kjör í fyrstu umferð, en Arnar Heiðarsson var valinn í seinni umferð kosninga. Stjórn FLR fyrir starfsárið 2024-2025 skipa því Pétur H. Halldórsson, formaður, ásamt Jóhanni Unnari Sigurðssyni, Arnari Heiðarssyni, Bergrós B. Bjarnadóttur og Róberti Einari Jenssyni sem meðstjórnendum. Hafþór Ólason og Kristján Sveinbjörnsson gegna hlutverki varamanna. 

Á aðalfundinum voru ársreikningar félagsins kynntir og samþykktir án athugasemda, en engin tillaga lá fyrir um breytingar á félagsgjöldum eða samþykktum félagsins. Núverandi skoðunarmenn reikninga, Helgi Kolsöe og Lárus Andri Jónsson, voru endurkjörnir einróma.

Undir liðnum önnur mál vakti Hjörleifur Stefánsson, formaður SART, athygli fundarmanna á Mannvirkjagátt HMS og hvatti félagsmenn til að nýta sér upplýsingarnar sem þar má finna. Áður en fundurinn hófst hélt Borgar Erlendsson kynningu á nýju markaðsforriti, Kozmoz, sem ætlað er að auðvelda viðskiptatengsl og miðlun þjónustu á sviði löggiltra iðngreina í mannvirkjagerð.

Myndin hér fyrir ofan er af Pétri H. Halldórssyni, formanni FLR.