Ný stjórn Félags löggiltra rafverktaka
Ný stjórn var kosin á aðalfundi Félags löggiltra rafverktaka, FLR, sem fór fram í Húsi atvinnulífsins 6. nóvember. Jóhann Unnar Sigurðsson var endurkjörinn formaður FLR til næstu tveggja ára. Auk þess sem kosið var um meðstjórnendur og varamenn. Meðstjórnendur eru Arnar Heiðarsson, Hafþór Ólason, Kristján Sveinbjörnsson og Róbert Einar Jensson. Varamenn eru Snorri Sturluson og Rúnar Kristjánsson. Helgi Kolsöe og Lárus Andri Jónsson voru endurkjörnir sem skoðunarmenn reikninga. Ársreikningur félagsins var samþykktur samhljóða og engar breytingar lagðar til á félagsgjöldum eða samþykktum. Fundurinn markaði lok viðburðaríks starfsárs þar sem áhersla var lögð á réttindi rafverktaka, menntun, öryggi og faglegt sjálfstæði.
Fjölbreytt verkefni og virkt félagsstarf
Á starfsárinu fundaði stjórn FLR átta sinnum og fjölmörg málefni voru tekin til umræðu, þar á meðal staða og réttindi rafvirkjameistara, öryggismál og samskipti við bæði Veitur og HMS. Í skýrslu formanns kom fram að félagsmenn hafi verið ötulir í að koma ábendingum á framfæri vegna réttindalausrar starfsemi og að nauðsynlegt sé að vekja áframhaldandi athygli á því máli. Miklar umræður voru einnig um nauðsyn teikniréttinda rafvirkjameistara, aðgengi að útboðsgögnum og verklagsreglur um uppsetningu rafmagnsmæla og spennusetningar. FLR krefst skýrari ferla og samræmingar sem tryggja fagmennsku og öryggi í framkvæmdum.
Þátttaka í stefnumótun og faglegum umræðum
Félagið tók virkan þátt í stefnumótun Sart fyrir næstu fimm ár og var m.a. rætt um menntun, ábyrgð og stöðu iðngreina. Fundir voru haldnir í samstarfi við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið um framtíð meistaranáms í rafvirkjun, og kallað eftir því að meistarar verði virkir þátttakendur í þeirri þróun.Haldinn var fræðslufundur um framleiðslu og geymslu birtuorku og nýsköpun á því sviði, auk þess sem fundað var með Veitum og HMS vegna breytinga á verkferlum og samskiptum.
Á fundinum kynnti Aron Bjarnason frá Filmís rafræn vinnustaðaskírteini frá Hverertu.is sem unnin voru að frumkvæði Meistaradeildar Samtaka iðnaðarins.
Nánar á vef Samtaka rafverktaka.
Snorri Sturluson, varamaður, Róbert Einar Jensson, meðstjórnandi, Hafþór Ólason, meðstjórnandi, Jóhann Unnar Sigurðsson, formaður, Rúnar Kristjánsson, varamaður, og Kristján Sveinbjörnsson, meðstjórnandi. Arnar Heiðarsson, meðstjórnandi, var fjarverandi.

