Ný stjórn Félags rafeindatæknifyrirtækja
Á aðalfundi Félags rafeindatæknifyrirtækja, FRT, sem fór fram fyrir skömmu tilkynnti Hjörtur Árnason að hann léti af formennsku eftir yfir tuttugu ára starf í stjórn FRT, þar af fjölda ára sem formaður. Hann þakkaði samstarfsfólki sínu og sérstaklega Kristjáni Daníel Sigurbergssyni, framkvæmdastjóra Samtaka rafverktaka, fyrir traust og gott samstarf í gegnum árin. Nýr formaður FRT er Guðni Einarsson. Meðstjórnendur eru Halldór Gunnarsson og Sigurður Gunnarsson. Varamenn eru Davíð Valdimar Arnalds og Ólafur Friðrik C. Rowell.
Á starfsárinu 2025 hefur FRT lagt ríka áherslu á að efla fagmennsku, tryggja réttindi greinarinnar og styrkja stöðu rafeindavirkja sem löggiltrar iðngreinar í tæknivæddu samfélagi. Unnið hefur verið ötullega að hagsmunamálum félagsmanna og stefnumótun til framtíðar. Félagið stækkaði á árinu með nýjum félagsmönnum og á starfsárinu hefur stjórn haldið fjóra fundi auk vinnufunda um stefnumótun. Einnig hefur formaður FRT tekið virkan þátt í fundum á vegum Starfsgreinaráðs, SART, Rafmenntar og Samtaka iðnaðarins (SI), þar sem fjallað hefur verið um margvísleg mál er varða menntamál, lagasetningu og réttindi iðngreina.
Á vef Sart er hægt að nálgast frekari upplýsingar um aðalfundinn.
Ný stjórn FRT, talið frá vinstri, Davíð Valdimar Arnalds, Halldór Gunnarsson, Guðni
Einarsson og Ólafur Friðrik C. Rowell.
Nýr formaður FRT, Guðni Einarsson, þakkar fráfarandi formanni, Hirti Árnasyni, fyrir rúmlega tveggja áratuga starf í þágu félagsins.
Pétur H. Halldórsson, formaður Sart, færði Hirti Árnasyni þakkir.

