Ný stjórn Félags rafverktaka á Suðurlandi
Ný stjórn Félags rafverktaka á Suðurlandi (FRS) var kosing á aðalfundi félagsins sem fór fram fimmtudaginn 11. desember á Hótel Selfossi. Magnús Gíslason, formaður, Guðjón Guðmundsson og Ragnar Ólafsson sitja í stjórn. Þá voru kjörnir skoðunarmenn og fulltrúar í stjórn SART.
Aðalfundurinn hófst á kynningu frá Aroni Bjarnasyni um rafræn vinnustaðaskírteini frá „Hver ertu?“ þar sem fundarmenn fengu innsýn í það hvernig nota má rafrænu vinnustaðaskírteini til að tryggja öryggi í viðskiptum auk þess að halda utan um réttindanámskeið og staðfestingar á menntun.
Magnús Gíslason, formaður FRS, fór yfir starfsemi félagsins á liðnu ári og vakti sérstaka athygli á mikilvægi þess að efla félagsstarfið umfram hefðbundna aðalfundi. Hvatti hann til aukins samstarfs innan félagsins og við önnur samtök iðnmeistara á svæðinu. Meðal hugmynda voru fræðslufundir, skoðunarferðir og aðrir félagslegir viðburðir sem styrkja tengslanet og samstöðu innan greinarinnar. Í skýrslu formanns kom einnig fram að FRS hefði ásamt samstarfsaðilum styrkt rafdeild FSU með nýju þjálfunartæki, sem nýtist við kennslu í mótortengingum. Lýsir það vilja félagsins til að styðja við menntun framtíðar fagmanna á Suðurlandi.
Fundurinn endaði á kvöldverði í boði birgja. Í umræðum kom skýrt fram að félagsmenn vilja sjá aukna virkni í félagsstarfi og samstarfi innan greinarinnar. Félagsskapurinn gegnir mikilvægu hlutverki í því að styðja við fagmennsku og samkeppnishæfni rafverktaka á Suðurlandi.
Á vef Samtaka rafverktaka er hægt að nálgast frekari upplýsingar um aðalfundinn.

