Fréttasafn



4. nóv. 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samtök fyrirtækja í málm– og skipaiðnaði

Ný stjórn Málms - samtaka fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði

Ný stjórn var kosin á aðalfundi Málms - samtaka fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði sem fór fram í Húsi atvinnulífsins í gær. Daníel Óli Óðinsson, Járnsmiðja Óðins, var kosinn formaður til tveggja ára og tekur við af Helga Guðjónssyni, Marel, sem hefur gegnt formannshlutverki síðastliðin fjögur ár. Í framboði til meðstjórnenda voru Bjarni Thoroddsen, Stálsmiðjan Framtak, Guðmundur Hannesson, Kælismiðjan Frost, Ingólfur Þór Ævarsson, Marel, Ólafur R. Guðjónsson, Vélsmiðja Ólafs R. Guðjónssonar og Páll Kristjánsson, Slippurinn Akureyri, og voru þeir sjálfkjörnir. María Jónsdóttir, Héðinn, Rannveig Jónsdóttir, FerroZink, og Stefán Sigurðsson, Skipastöð Njarðvíkur, klára síðara ár af tveimur.

Á fundinum var ársskýrsla Málms flutt þar sem fjallað var um helstu verkefni og störf stjórnar á liðnu starfsári. Ársreikningi og fjárhagsáætlun félagsins voru gerð skil. Þá var Sáttmáli Málms um örugga vinnustaði borinn undir félagsmenn og hlaut einróma samþykki. Sáttmálinn er ætlaður fyrir félagsmenn og er leiðarvísir að vellíðan og öryggi á vinnustöðum meðal málm- og véltæknifyrirtækja. Stjórn Málms hvetur fyrirtæki sem hafa ekki þegar sett sér stefnu í eineltis, áreitni og ofbeldismálum til þess að líta til sáttmálans og tryggja eftirfylgni. Helgi Guðjónsson, fráfarandi formaður, lagði áherslu á að jákvæð og góð ásýnd málm- og véltækniiðnaðar laði að frambærilegan og fjölbreyttan mannauð í greinina.

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum kynnti Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, samstarfsverkefni SI, Eflu, Landsvirkjunar og Samorku um vefinn orkuskipti.is. Þá flutti Hallmar Halldórsson, framkvæmdastjóri Clara Artic Energy, erindi um nýorku undir yfirskriftinni Orkuskipti í samgöngum á landi og í haftengdri starfsemi. 

IMG_9283

IMG_9280

IMG_9272

IMG_9288Helga Guðjónssyni hjá Marel voru þökkuð stjónarstörf en hann gegndi formannshlutverki síðastliðin 4 ár.