Ný stjórn Rafverktakafélags Suðurnesja
Ný stjórn Rafverktakafélags Suðurnesja, RS, var kosin á aðalfundi félagsins sem fór fram á Hótel Keflavík 6. nóvember. Í nýrri stjórn eru Hjörleifur Stefánsson, formaður, Guðmundur Ingólfsson, ritari, Björn Kristinsson, gjaldkeri, og Ólafur Róbertsson, varamaður.
Á fundinum flutti formaður félagsins skýrslu stjórnar þar sem fram kom að félagsstarfið hafi að mestu farið fram í gegnum þátttöku í Sart, en formaður RS situr í stjórn og framkvæmdastjórn samtakanna og ritari er varamaður í stjórn. RS á einnig í góðu samstarfi við Samtök iðnaðarins, meðal annars um stefnumótun og vöktun á atvinnuþróun. Á fundinum kom fram að atvinnuástand rafverktaka á Suðurnesjum væri gott þrátt fyrir vissar blikur og áframhaldandi skort á faglærðu starfsfólki. Á liðnu ári útskrifuðust 18 einstaklingar með sveinspróf í rafvirkjun, þar af einn í rafveituvirkjun.
Ný verkefni og sameiginlegir viðburðir
Félagið tók þátt í fjölbreyttum viðburðum á árinu. Meðal annars var haldið golfmót rafvirkja í Sandgerði með góðri þátttöku. Nýtt verklag var tekið upp þar sem eitt fyrirtæki sér um mótshald hverju sinni, og mun SI Raflagnir ehf. annast mótið árið 2026. RS stóð einnig að starfsgreinakynningu fyrir nemendur í íþróttahúsinu við Sunnubraut, í samstarfi við Rafmennt. Þá fór fyrsti haustfundur stjórnar Sart fram í Keflavík, og í tengslum við hann var skipulagður stefnumótunarfundur með góðri þátttöku. Arnbjörn Óskarsson var gerður að heiðursfélaga RS og minnst var Ingvars Hallgrímssonar, sem lést á árinu. Þá var rætt um mikilvægi heilbrigðisvottorða fyrir fyrirtæki, sem nú er aftur komið á dagskrá innan stjórnar SI og SA. Formaður RS leggur mikla áherslu á að nýta nútímatækni til að einfalda ferlið. Einnig kom fram gagnrýni á umhverfisvottanir eins og Svans og Breeam, sem geti valdið miklu auknu vinnuálagi við gagnaöflun – án þess að endilega skili sér í betri gæðum. Þó sé hægt að fá hagstæðari fjármögnun með slíkar vottanir.Fundinum lauk með kvöldverði á vegum Reykjafells, sem hlaut sérstakar þakkir frá formanni fyrir stuðning við félagið og góða þjónustu við Suðurnesjamenn.
Nánar á vef Samtaka rafverktaka.
Björn Kristinsson, gjaldkeri, Hjörleifur Stefánsson, formaður, Ólafur Róbertsson, varamaður, og Guðmundur Ingólfsson, ritari.

