Ný stjórn Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja
Ný stjórn var kosin á aðalfundi Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja, SUT. Gunnar Zoëga, nýráðinn forstjóri Opinna kerfa, var endurkjörinn formaður stjórnar. Aðrir í stjórn voru kjörnir Haraldur Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis, Jóhann R. Benediktsson, markaðsstjóri Curron og Vilborg Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Bravo Earth. Fyrir í stjórn sátu Valgerður Hrund Skúladóttir, framkvæmdastjóri Sensa, Tryggvi Hjaltason, sérfræðingur hjá CCP, og Jóhannes Helgi Guðjónsson, framkvæmdastjóri Wise lausna. Úr stjórn hverfur Kristín Helga Magnúsdóttir, forstöðumaður vöru- og verkefnastýringar hjá Creditinfo. Kristínu var sérstaklega þakkað á fundinum fyrir góð störf í þágu SUT.
Á myndinni hér fyrir ofan eru, talið frá vinstri, Haraldur Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkenni, Gunnar Zoëga, forstjóri Opinna kerfa, Valgerður H. Skúladóttir, framkvæmdastjóri Sensa, Jóhannes H. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Wise lausna, Kristín Helga Magnusdóttir, forstöðumaður vörustýringar hjá Creditinfo og Jóhann R. Benediktsson, markaðsstjóri Curron.
Tækifæri til vaxtar í upplýsingatækniiðnaði en skortur á mannauði áhyggjuefni
Á fundinum ræddu félagsmenn SUT stöðu upplýsingatækniiðnaðar, áskoranir og tækifæri. Þar kom meðal annars fram að upplýsingatækni á Íslandi hafi alla burði til að verða öflug útflutningsgrein á Íslandi en félagsmenn SUT eru einhuga um að skortur á mannauði standi vexti fyrir þrifum. Því þurfi að leggja áherslu á að liðka fyrir komu erlendra sérfræðinga og setja aukið púður í að hvetja fleiri í þessum hópi til að setjast að á Íslandi. Auk þessa þurfi að efla tæknimenntun og fjölga háskólamenntuðum hér á landi með færni í svokölluðum STEM (Science - Technology - Engineering - Mathematics). Á fundinum kom fram að Íslendingar standi framarlega í stafrænum innviðum, tæknilæsi og hugbúnaðarþróun og því séu tækifærin svo sannarlega til staðar.
Kjaraviðræður taki mið af tæknibreytingum
Auk mannauðsmála ræddu félagsmenn mikilvægi þess að komandi kjaraviðræður tækju mið af þeim tæknibreytingum sem orðið hafa á síðastliðnum árum og hafa óhjákvæmilega haft áhrif á starfsemi íslenskra fyrirtækja í hugverkaiðnaði. Þá ræddu félagsmenn mikilvægi þess að útboð í upplýsingatækni væru vel úr garði gerð, aukinnar umræðu um netöryggismál og önnur hagsmunamál upplýsingatækniiðnaðar.
Hér er hægt að nálgast ársskýrslu SUT fyrir árið 2021.
Haraldur Bjarnason, framkvæmdastjóri Auðkennis, Valur Arnarsson, forstöðumaður vöruþróunar hjá
Curron, Kristín Helga Magnúsdóttir, forstöðumaður vöru- og verkefnastýringar hjá Creditinfo og Salvör Kolbrá
Jóhannes H. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Wise lausna, og Valgerður H. Skúladóttir, framkvæmdastjóri Sensa.
Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, var fundarstjóri á aðalfundi SUT.