Fréttasafn



18. mar. 2025 Almennar fréttir Mannvirki Samtök rafverktaka

Nýr formaður Samtaka rafverktaka

Pétur H. Halldórsson var kjörinn nýr formaður Samtaka rafverktaka, SART, á aðalfundi samtakanna sem fór fram fyrir skömmu. Pétur hefur víðtæka reynslu af störfum innan rafiðnaðarins og hefur gegnt lykilhlutverkum í hagsmunagæslu og fagþróun greinarinnar um árabil.

Pétur hefur setið í stjórn Félags löggiltra rafverktaka frá 2016 og verið formaður þess frá 2018. Hann hefur einnig verið virkur í starfi SART og setið í framkvæmdastjórn samtakanna frá 2018, auk þess að vera varformaður frá sama ári. Þá hefur hann setið í stjórn Rafmenntar og gegnir nú formennsku í starfsgreinaráði rafiðnaðarins. Hann hefur lagt mikla áherslu á endurmenntun í rafiðnaði og mikilvægi löggildra iðngreina. Pétur rekur fjölskyldufyrirtækið Raftækjasöluna ehf. sem var stofnað af afa hans árið 1941 og starfrækir hann það í dag ásamt tveimur sonum sínum. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í faglegri þjónustu og gæðum í rafiðnaði. Auk þess hefur Pétur sinnt fjölmörgum nefndarstörfum fyrir SART, þar á meðal í sveinsprófsnefnd sterkstraums, fagráði Tækniskólans og samninganefnd vegna kjarasamninga.

Vill efla fagmennsku og endurmenntun innan rafiðnaðarins

Sem formaður SART hyggst Pétur vinna að því að efla fagmennsku og endurmenntun innan rafiðnaðarins, standa vörð um hagsmuni rafverktaka og tryggja að löggildar iðngreinar haldi sínum sess. Hann leggur einnig áherslu á að auka sýnileika SART og efla tengsl samtakanna við stjórnvöld og atvinnulífið. Þá vill hann stuðla að sanngjörnu og réttlátu starfsumhverfi fyrir rafverktaka um allt land.

Pétur er 58 ára gamall, búsettur í Kópavogi, giftur og fjögurra barna faðir. Hann hefur mikinn áhuga á útivist og tækjaíþróttum og hefur verið virkur í félags- og hagsmunastarfi um árabil. Með víðtæka reynslu og skýra framtíðarsýn hyggst hann leiða SART áfram til öflugrar og jákvæðrar framtíðar.

Stjórn SART

Stjórn SART er skipuð eftirtöldum: 

• Pétur H. Halldórsson, formaður Sart
• Hjörleifur Stefánsson, formaður RS og varaformaður Sart
• Aðalsteinn Þór Arnarson, formaður FRN
• Hrafnkell Guðjónsson, formaður FRA
• Magnús Gíslason, formaður FRS
• Magnús Guðjónsson, formaður FRVL
• Sævar Óskarsson, formaður FRVF
• Hjörtur Árnason, formaður FRT
• Jóhann Unnar Sigurðsson, formaður FLR
• Róbert Einar Jensson, stjórnarmaður FLR
• Arnar Heiðarsson, stjórnarmaður FLR

20250307_103829Hjörleifur Stefánsson, fyrrum formaður SART, og Pétur Halldórsson, nýr formaður SART.