Fréttasafn4. sep. 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Nýr upplýsingavefur um Ísland

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar, opnaði í hádeginu í dag í húsakynnum Alvotech nýjan upplýsingavef, Work in Iceland, sem er stórt skref á þeirri vegferð að laða erlenda sérfræðinga til Íslands í sérfræði- og hátæknistörf. Vefurinn er samstarfsverkefni Íslandsstofu, Samtaka iðnaðarins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins en unnið hefur verið að gerð hans frá byrjun árs 2018. Um er að ræða heildstæða upplýsingagátt á ensku sem hefur það að markmiði að kynna Ísland sem ákjósanlegan stað til búsetu og vinnu. Þar eru meðal annars upplýsingar um ferlið við að sækja um atvinnu- og dvalarleyfi, tryggingar og skattamál, en einnig upplýsingar um kosti þess að búa á Íslandi, ekki síst fyrir fjölskyldufólk. Work in Iceland mun einnig efla og styðja við markaðssetningu á Íslandi sem ákjósanlegum og eftirsóknarverðum stað í þeim tilgangi að laða fólk með sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum til landsins.

Á myndinni sem tekin var við opnun vefjarins Work in Iceland í húsakynnum Alvotech eru, talið frá vinstri, Árni Harðarson, aðstoðarforstjóri Alvogen og stjórnarmaður Alvotech, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra: „Það er ótrúlega mikilvægt fyrir íslenskt atvinnulíf að laða hingað hæft fólk. Það þýðir að fleiri taka þátt í nýsköpun og verðmætasköpun sem er hagur okkar allra. Til þess eigum við að halda á lofti styrkleikum okkar sem eru mýmargir og fjölbreyttir. Verkefnið Work in Iceland er því mikill fengur og ég er sérstaklega glöð að hafa fengið að fylgja því eftir.“

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI: „Ein af þeim áskorunum sem hátækni- og hugverkafyrirtæki hér á landi standa frammi fyrir er skortur á sérfræðiþekkingu og getur hann hindrað vöxt þeirra. Þetta verkefni markar þáttaskil í að ryðja þeirri hindrun úr vegi enda skiptir upplýsingagjöf miklu máli í þessu samhengi og skilar sér í bættri samkeppnishæfni Íslands.“

Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu: „Hlutverk okkar hjá Íslandsstofu er að segja söguna af Íslandi í víðu samhengi. Það hefur mikið áunnist á undanförnum árum við að auka vitund um Ísland erlendis og hefur fjölgun erlendra gesta hingað til lands haft mikið um það að segja. Sú aukna vitund, og sú staðreynd að við eigum tækni- og nýsköpunarfyrirtæki í fremstu röð í heiminum gefur okkur aukin tækifæri til að laða hingað erlenda sérfræðiþekkingu. Vefur á borð við þennan er nauðsynlegur til þess að hjálpa fólki að fræðast um kosti þess að lifa og starfa á Íslandi.“

Árni Harðarson, aðstoðarforstjóri Alvogen og stjórnarmaður Alvotech: „Work in Iceland er virkilega mikilvæg upplýsingaveita fyrir okkur í Alvotech þar sem fyrirtækið þarf að laða til sín mikið af erlendum sérfræðingum á sviði framleiðslu líftæknilyfja. Það hefur oft reynst krefjandi að sannfæra hæft fólk að flytja hingað til lands með sína fjölskyldu en góðar upplýsingar um ágæti okkar samfélags munu auðvelda okkar starf við ráðningar í framtíðinni.“

Frettabladid.is, 2. september 2019

Rúv, 3. september 2019

mbl.is, 3. september 2019

Iceland monitor, 5. september 2019

Northstack, 3. september 2019

Myndir

Á Facebook SI er hægt að nálgast myndir frá viðburðinum.

Si_alvotech_a-1Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, stýrði viðburðinum.

Si_alvotech_a-3Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Si_alvotech_a-5Árni Harðarson, aðstoðarforstjóri Alvogen og stjórnarmaður Alvotech.

Si_alvotech_a-10Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu.

Si_alvotech_a-16Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.