Fréttasafn28. maí 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Nýsköpun

Nýsköpun á eftir að breyta byggingariðnaði hratt

Samtök iðnaðarins ásamt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Byggingavettvanginum og Verkís, stóðu í morgun fyrir opinni málstofu í samstarfi við Nýsköpunarvikuna sem stendur frá 26. maí til 2. júní. Á málstofunni var vinna við nýtt skipulag á rannsóknar- og nýsköpunarumhverfi byggingariðnaðarins kynnt auk þess sem fulltrúar úr langri virðiskeðju mannvirkjagerðar héldu örerindi um nýsköpun innan byggingariðnaðarins. Málstofan bar yfirskriftina Nýsköpun í mannvirkjagerð – framkvæmdir til framtíðar og fór fram í Grósku við Vatnsmýri auk þess sem var boðið upp á beint streymi.

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, var fundarstjóri. Hún sagði frá því í opnunarorðum að næstu ár verða tími breytinga. Fram undan sé endurreisn hagkerfisins eftir heimsfaraldur og á sama tíma sé mikill þrýstingur á atvinnulífið um aðgerðir í umhverfismálum, ekki síst þegar kemur að byggingariðnaði. Jóhanna Klara nefndi að hingað til hafi byggingariðnaðurinn verið álitinn ansi íhaldssamur iðnaður sem hafi ekki endilega verið tengdur við mikla nýsköpun. Tækniframfarir og nýsköpun eigi þó eftir að breyta iðnaðinum hratt og sífellt meiri áhersla verði lögð á frjóa hugsun, tækni og sjálfvirkni. Hún sagði að á næstu árum munum við sjá ný fyrirtæki verða til á þessu sviði. Starfsemi þeirra muni m.a. fela í sér þróun á tæknilausnum fyrir undirbúning framkvæmda, hönnun, uppbyggingu, rekstur, leigu og umbreytingu fasteigna. Krafan um sjálfbærni með áherslu á kolefnisfótspor, auðlindanotkun, aukin gæði og orku muni einnig ýta undir nauðsynlega nýsköpun.

Hér er hægt að horfa á upptöku af viðburðinum: https://www.facebook.com/events/312437883711747

Fundur-mai-2021-1-Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, var fundarstjóri. 

Fundur-mai-2021-3-Wassim Mansour, framkvæmdastjóri gæða- og sölumála hjá Steypustöðinni, flutti erindi með heitinu Smart testing and artificial intelligence in concrete construction.

Fundur-mai-2021-4-Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverk, fjallaði um nýsköpun í byggingariðnaði með áherslu á umhverfismál.

Fundur-mai-2021-5-Davíð Friðgeirsson, BIM ráðgjafi hjá Verkís, fjallaði um tæknibyltingu í hönnun mannvirkja.

Fundur-mai-2021-6-Helga Guðrún Vilmundardóttir, arkitekt hjá Stáss arkitektum, fór yfir nýsköpun, nýhugsun, endurhugsun og umhugsun.

Fundur-mai-2021-7-Íris Þórarinnsdóttir, umhverfisstjóri Þróunarsviðs hjá Reitum, fjallaði um nýsköpun í uppbyggingu atvinnusvæðis.

Fundur-mai-2021-8-Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins, sagði frá fjórum nýsköpunarvísum í framkvæmdum FSR.

Fundur-mai-2021-9-Þormóður Sveinsson, skipulagsfulltrúi Hafnarfjarðar, fjallaði um aðra nálgun í skipulagsmálum.

Fundur-mai-2021-10-Hera Grímsdóttir, forseti iðn- og tæknifræðideildar Háskólans í Reykjavík, talaði um mikilvægi samtals atvinnulífs og háskóla um þróun í nýsköpun og menntamálum.

Fundur-mai-2021-11-Gunnar Bjarni Viðarsson, vörustjóri íbúðalána hjá Arion banka, fjallaði um græna fjármögnun á fasteignamarkaði.