Fréttasafn



22. mar. 2019 Almennar fréttir

Nýsköpun forsenda þess að tryggja góð lífskjör

„Allt atvinnulífið er á tímamótum um þessar mundir og við þurfum á öflugri nýsköpun að halda í öllum atvinnugreinum og raunar á öllum sviðum þjóðfélagsins til að mæta þeim samfélagslegu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. Við megum undir engum kringumstæðum missa af þeim möguleikum sem felast í fjórðu iðnbyltingunni, við þurfum að hafa lausnir sem tryggja að heilbrigðiskerfið okkar sé í fararbroddi og kannski umfram allt verðum við að bregðast við þeim miklu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í loftslagsmálum. Nýsköpun er forsenda þess að við getum áfram tryggt góð lífskjör og hagsæld á Íslandi sem standast samanburð við það sem best gerist. Efling nýsköpunar er þannig ekki val, heldur nauðsyn og þar af leiðandi eitt mikilvægasta verkefni þessarar ríkisstjórnar.“ Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dóms-, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í viðtali í sérblaði Morgunblaðsins um Iðnþing 2019. 

Þá segir hún jafnframt að í vinnu við nýsköpunarstefnu verði lagt upp úr því að vera í góðu samstarfi við aðra stefnumótunarvinnu í landinu. „Það skiptir kannski ekki öllu máli í hvaða röð stefnur eru unnar, heldur fyrst og fremst að það eigi sér stað stöðugt samtal, upplýsingaflæði og skoðanaskipti milli mismunandi fagaðila og stefnumótandi aðila.“

Hér er hægt að lesa viðtalið við ráðherra í Iðnþingsblaðinu í heild sinni.