Nýtt skeið runnið upp
Nýtt skeið er runnið upp er yfirskrift greinar sem Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, skrifar og birtist í Markaðnum sem fylgir Fréttablaðinu. Þar segir Sigurður að áratugur endurreisnar efnahagslífsins sé að baki og hafi skýr sýn og markvissar aðgerðir skilað sterkri stöðu til að takast á við áskoranir fram undan. Tvennt standi upp úr við endurreisn efnahagslífsins eftir fall bankanna 2008. Annars vegar sé það endurskipulagning skulda þar sem heildstæð áætlun um losun fjármagnshafta hafi vegið þyngst. Hins vegar sé það kröftugt viðbragð atvinnulífsins þar sem ferðaþjónusta blómstraði og hafi orðið að undirstöðugrein í útflutningi ásamt iðnaði og sjávarútvegi. Niðurstaðan af þessari markvissu uppbyggingu sé sú að hagkerfið sé gjörbreytt og standi miklu sterkar nú en áður. Hann segir að í sama anda eigi að efla samkeppnishæfnina þannig að öflugt atvinnulíf geti tryggt verðmætasköpun með tilheyrandi lífsgæðum fyrir landsmenn alla. Það þurfi að gera – og verði gert – með mótun atvinnustefnu sem tengir saman stefnumótun í ólíkum málaflokkum.
Náum ekki árangri nema hugsa stórt og á heildstæðan hátt
Sigurður segir atvinnustefnu vera samhæfingu aðgerða til þess að skapa aukin verðmæti, auka framleiðni og efla samkeppnishæfni. Um þessar mundir vinni stjórnvöld að mótun stefnu í ýmsum lykilmálaflokkum. Það sé vel en við munum ekki ná árangri nema hugsa stórt og á heildstæðan hátt, líkt og við endurreisn efnahagslífsins undanfarinn áratug, þannig að stefnumótun í ólíkum málaflokkum vinni að sameiginlegu markmiði. Hann segir að tengja þurfi saman stefnumótun á sviði menntamála, nýsköpunar, innviðauppbyggingar og bætts starfsumhverfis fyrirtækja með það að markmiði að auka verðmætasköpun á Íslandi. Einnig þurfi að horfa til orku- og loftslagsmála. Með því að læra af reynslu síðasta áratugar og hugsa heildstætt getum við bætt stöðu Íslands svo um munar. Sigurður segir þetta vera ekki val heldur nauðsyn.
Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.