Fréttasafn18. júl. 2019 Almennar fréttir Hugverk

Óánægja með breytingar á endurgreiðslum til kvikmyndagerðar

Við munum beita okkur af öllum krafti á móti þessu. Þetta er ein stór þversögn. Þetta segir Kristinn Þórðarson, formaður Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, í Morgunblaðinu í dag um tillögur að breytingu á lögum um endurgreiðslu ríkisins á kostnaði við kvikmyndagerð hér á landi þar sem lagt er til að þak verði sett á greiðslur til einstakra verkefna. Í frétt blaðsins kemur fram að upphaflegt markmið laganna hafi verið að efla íslenskan kvikmyndaiðnað og laða hingað til lands erlenda kvikmyndagerðarmenn en nú sé m.a. lagt til að spjall-, raunveruleika- og skemmtiþættir fái ekki endurgreiðslu.

Hætt við að mörg fyrirtæki fari á hausinn

Kristinn segist óánægður með að til standi að fella spjall-, raunveruleika- og skemmtiefni út úr kerfinu. „Kvikmyndagerðarmenn lifa á því að erlend verkefni komi hingað. Í bland við innlendu verkefnin gera þau það að verkum að við höfum um 1.500 manns hér, allt árið um kring, innanlands. Eitt af því sem fólk vinnur við er það sem kalla má „skemmtiefni“ sem ekki byggist á handritum. Það má skoða breytingar á þessu, en ef þetta er þurrkað út í einu lagi er hætt við að mörg fyrirtæki fari einfaldlega á hausinn.“

Laða að erlenda kvikmyndagerð en samt skera niður

Þá segir Kristinn í fréttinni að það sé verið að talað um að laða að erlenda kvikmyndagerðarmenn, en samt sé verið að skera niður. „Með því að setja þak á endurgreiðslurnar er möguleiki á því að stærri verkefni þurfi að bíða í tvö til þrjú ár eftir að fá endurgreiðsluna.“ Í fréttinni segir að undanfarin ár hafi endurgreiðslur kostnaðar numið um og yfir milljarði króna og gerð grein fyrir aukaútgjöldum í fjáraukalögum, hafi svo borið undir. 

Kristinn segir að þótt stóru myndverin í Hollywood ráði við þetta séu mjög margir sem séu ekki þaðan sem komi til landsins. „Þú getur samt ímyndað þér fjármagnskostnaðinn við að bíða í tvö til þrjú ár eftir fjármagninu til baka. Ef enginn kemur til Íslands að taka upp kostar það ríkið ekki neitt. Ef einhver kemur hingað og eyðir milljón dölum fær hann 25% endurgreidd, en ríkið er þá búið að fá inn miklu meira, t.d. í formi skatta.“ Þá segir Kristinn að 20% allra ferðamanna komi til Íslands vegna þess að þeir hafi séð íslenska bíómynd eða erlenda bíómynd sem tekin hafi verið upp á Íslandi. 

Morgunblaðið / mbl.is, 18. júlí 2019.